Föstudagur 6. janúar 2017 kl. 11:30

Kynningafundur vegna kísilvers Thorsils: Undirskriftir allra bæjarbúa duga ekki

Sigrún Ágústsdóttir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun sagði á kynningarfundi vegna starfsleyfis Thorsils kísilversins að ekkert hefði enn komið  fram sem gæti komið í veg fyrir að Thorsil fengi starfsleyfi. Tekið er við athugasemdum til 9. janúar og í framhaldinu gefur Umhverfisstofnun sér 4 vikur til að fara yfir athugasemdir sem berast.

Sigrún og tveir aðrir starfsmenn stofnunarinnar fóru yfir mál og svöruðu spurningum sem tengjast starfsleyfisumsókn Thorsil. Um 30-40 manns voru á fundinum og mættu þeir með margar spurningar sem þeir fengu svör við.

Meðal þess sem starfsmenn Umhverfisstofnunar voru talsvert spurðir um voru mengunarmælingar. Sigrún segir að mælingar séu í gangi allan sólarhringinn og nýjustu mæligögn uppfærast á 10 mínútna fresti. „Á gamlárskvöld fékkst ágætt próf á virkni mælannna, en þá mældist talsverð mengun frá flugeldum á mælistöðvunum við Heiðarskóla og Hólmbergsbraut. Ef frá eru taldir þessir toppar á gamlárskvöld og nýársnótt hafa þeir mengunartoppar sem hafa komið verið vel innan heilsuverndarmarka og nokkuð lægri en toppar sem oft sjást á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Sigrún.

Víkurfréttir ræddu við Sigrúnu eftir fundinn og þar svarar hún til dæmis þeirri spurningu hvort undirskriftir allra bæjarbúa gegn veitingu starfsleyfis til hana Thorsil myndi hafa áhrif.