Kvikan komin ofarlega og jarðlög mjög brotin
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks hjá Veðurstofu Íslands, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í gær að minnkandi virkni bendi til að kvika sé komin mjög ofarlega í jarðskorpuna og þurfi ekki mikið til að hún komist upp á yfirborð. Eftir fjölmarga kröftuga jarðskjálfta á svæðinu séu jarðlög orðin mjög brotin og því auðvelt fyrir kvikuna að komast upp sé nægur þrýstingur til staðar.
Kristín sagði atburðarásina núna ekki ólíka því sem var í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum 19. mars 2021. Á meðan líkindareikningar bendi til þess að kvika sé að flæða inn í kvikuganginn, sem myndaðist í miklum hamförum föstudaginn 10. nóvember, verði að teljast líklegt að gjósi.
Gosið getur hvar sem er á kvikuganginum en líklegasti staðurinn sé um miðbik gangsins. Hann er vestan við Hagafell. Þaðan geti hraun runnið í Svartsengi, til Grindavíkur og einnig í norður og vestur. Það skipti miklu máli hvað gossprungan opnist með tilliti til hraunrennslis.