Kraftmikil hrauná rennur í Nátthaga
Kraftmikil hrauná rennur nú í Nátthaga úr Geldingadölum. Mikið magn af þunnfljótandi hrauni fossar nú niður bratta hlíðina og safnast í tjörn í dalbotninum fyrir neðan. Mikið magn að hrauni hefur runnið niður í Nátthaga í dag
Uppi á fjallinu er jarðýta sem ýtir upp leiðigarði sem á að halda hrauninu frá því að renna niður í Nátthagakrika. Jarðýtunni var komið upp á fjallið í dag og á elleftu stundu tókst að bjarga því að hrauntunga færi af stað í átt að Nátthagakrika.
Vinna við leiðigarðinn gengur vel en hann á að verða a.m.k. um fjórir metrar á hæð og er ætlað að beina hraunstraumnum í Nátthaga. Farri hraunið í Nátthagakrika á það möguleika á að fara í nokkrar áttir. Þaðan er stutt niður á Suðurstrandarveg en það gæti einnig runnið í átt til Grindavíkur og í áttina að Svartsengi.
Myndskeiðið með fréttinni tók okkar maður í Grindavík, Jón Steinar Sæmundsson.
Hraunáin fossar m.a. yfir gönguleiðina upp að gosstöðvunum.
Unnið er að því að ýta upp leiðigörðum til að varna því að hraunið fari niður í Nátthagakrika.