Föstudagur 19. mars 2010 kl. 12:40

Klassart og Hallgrímur Pétursson í kirkjum Suðurnesja

Hljómsveitin Klassart hefur samið lög við ljóð Hallgríms Péturssonar og sett saman dagskrá sem flutt verður í kirkjum á Suðurnesjum. Fyrsti flutningur á dagskránni var í gær í Ytri Njarðvíkurkirkju. Mikil vinna liggur á bak við dagskrána sem er studd af Menningarráði Suðurnesja, Kjalarnesprófastdæmi og sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Í meðfylgjandi myndskeiði er smá tóndæmi frá dagskránni í Njarðvík í gær.


Fríða Dís Guðmundsdóttir, söngkona Klassart, segir að þau systkinin sem skipa Klassart, fari aðrar leiðir að Hallgrími Péturssyni og fókusa á mannlega þáttinn í lífi hans. Fríða Dís segir Hallgrím geyma góða sál og hann hafi verið mikil persóna, jafnvel þó svo horft sé á hann án hempunnar. Þá stóð sterk kona að baki Hallgrími. Í dagskránni er Suðurnesjamanninum Hallgrími Péturssyni haldið á lofti en saga Hallgríms er sterk á Hvalsnesi þar sem hann missti dóttur sína, Steinunni, og jarðsetti. Hann klappaði nafn hennar í legstein sem fannst fyrir um öld síðan en steinninn er varðveittur í Hvalsneskirkju.


Þau Klassart-systkini hafa farið djúpt í bókmenntirnar til að kynna sér sögu Hallgríms. Smári Guðmundsson hefur samið tónlistina að mestu leyti en Fríða samdi einnig laglínur í tvö lög. „Smári er algjör snillingur og hann hreinlega mjólkar þessu út,“ segir Fríða brosandi.


Tónlistin er bæði með blúsyfirbragði og einnig er vögguvísu-blær á hluta dagskrárinnar, sem fjallar um Steinunni dóttur Hallgríms. Fríða sagði tónlistina vera tilfinningaríka og þar eigi blúsinn vel við.


Kjarni verkefnisins er að flytja tónlistina í kirkjum Suðurnesja og leitast var eftir samstarfi við kirkjusóknir og grunnskóla svæðisins og kappkostað að gefa fermingarárgöngum tækifæri á að hlýða á flutninginn en tónleikarnir eru opnir öllum þeim sem áhuga hafa á málefninu. Markmiðið er að auka vitund fólks á þessum merka manni sem Hallgrímur var, á nýstárlegan og skapandi hátt.