Sunnudagur 18. apríl 2010 kl. 18:14

Keflavík og Snæfell berjast um Íslandsmeistaratitilinn - 1. leikurinn á morgun

Nú er það ljóst að Keflvíkingar og Snæfellingar munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla þetta árið. Þessi lið hafa þrisvar sinnum áður mæst í úrslitum Íslandsmótsins og hefur Keflavík ávallt borið sigur úr býtum.


Fyrst spiluðu liðin í úrslitum tímabilið 2003-2004, en því einvígi lauk með 3-1 sigri Keflavíkur. Næsta tímabil, 2004-2005, þá mættust liðin aftur í úrslitum og sigraði Keflavík það einvígi 3-1. Tímabilið 2007-2008 mættust liðin í 3. skipti og sigraði Keflavík það einvígi 3-0. Sagan er ekki hliðholl Snæfellingum, en þeir munu klárlega koma hungraðir til leiks í ár.


Fyrsti leikurinn fer fram í Toyotahöllinni á mánudaginn næstkomandi klukkan 19:15. Reiknað er með forsölu fyrir Keflvíkinga nokkrum klukkutímum fyrir leik, en miðaverð er 1500kr fyrir fullorðna og 1000kr fyrir börn 12-16 ára.


Video: Páll Ketilsson