Mánudagur 10. maí 2010 kl. 20:20

Keflavík er hörku lið sem stefnir á toppinn

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsí-deildin, hefst í kvöld. Á morgun leika Keflvíkingar gegn Breiðabliki. Þar sem unnið er að endurbótum á Keflavíkurvelli verður heimavöllur Keflvíkinga í Njarðvík fram á mitt sumar. Hins vegar næst ekki að klára áhorfendaaðstöðu þar í tæka tíð, þannig að leikurinn gegn Breiðabliki fer fram í Kópavogi kl. 19:15 á þriðjudagskvöld. Á sama tíma mætir Grindavík Stjörnunni í Garðabæ.

Keflvíkingar mættu Njarðvíkingum í æfingaleik í Njarðvík á mánudagskvöld. Eftir leikinn tóku Víkurfréttir Willum Þór Þórsson, þjálfara Keflavíkur tali, og ræddu við hann um veturinn með Keflavík og komandi knattspyrnusumar. Nánar verður fjallað um knattspyrnuundirbúninginn í næsta blaði þegar tekið verður hús bæði á Grindavík og Keflavík, sem munu mætast í nágrannaslag í 2. umferð Íslandsmótsins.


Þetta hefur verið langur vetur í æfingum. Hvernig leggst sumarið í þig?


„Já, veturinn er búinn að vera langur og hvergi annars staðar í heiminum er undirbúningstímabilið með sama hætti og á Íslandi. Við erum farnir að læra á þetta og spila fleiri leiki og gera meira en bara hlaupa og lyfta.


Það er frábært að komast á gras viku fyrir mót. Við höfum verið að æfa á grasi síðan við komum úr æfingaferð okkar að utan. Það var kærkomið að fá æfingaleik við Njarðvík hér viku fyrir mót“.


Nú ert þú nýr þjálfari Keflavíkurliðsins. Hvað hefur þú verið að gera við liðið?

„Við höfum í fyrsta lagi verið að æfa mjög vel og það er á mína ábyrgð. Ég vil meina að ég sé að taka við hörku fótboltaliði og hér eru mikil gæði og góðir leikmenn í Keflavíkurliðinu. Maður verður að vanda sig vel og það eru þættir í okkar leikskipulagi sem við höfum verið að vinna með og svo verður bara sumarið að leiða það í ljós hvernig það tekst til. Við ætlum okkur svo sannarlega að standa okkur í sumar“.


Það er mikil krafa í Keflavík um góðan árangur. Liðið var stutt frá titli 2008 og einnig örlítil vonbrigði í fyrra. Hvað ætlar þú að bjóða okkur upp á í sumar?


„Það er klárt að við ætlum að blanda okkur í toppbaráttuna eins lengi og þarf til til þess að finna þetta augnablik þar sem við hreinlega getum sagt, nú er ekkert annað en að kýla á titilinn.


Það er fullt af öflugum liðum og andstæðingum í deildinni þannig að þetta er vandasamt. Við lögðum upp með það í haust að vinna að þannig metnaði og með því hugarfari að vera með lið og liðsheild til þess að slást um toppinn og það er það sem við ætlum okkur að gera“.


Willum Þór segir ekki miklar breytingar á leikmannahópi Keflavíkur fyrir sumarið. Simun Samúelsson er farinn heim til Færeyja og Jón Gunnar Eysteinsson er farinn til Fram. Í staðinn er Paul McShane kominn til liðsins. Þá segir Willum að mikið hafi verið unnið með stráka í 2. flokki. Hann segir mjög gott unglingastarf verið unnið hjá Keflavík. Nefnir hann þar árganga 1992 og 93 sem urðu Íslandsmeistarar í 3. flokki. Hann segist hafa náð að virkja 14-15 stráka í vetrarstarfinu. Hann segir vandasamt að vinna úr liðinu þegar kynslóðaskipti séu að eiga sér stað en Keflavík búi einnig yfir gæðahópi af eldri leikmönnum. Þá er Keflavík að fá til liðsins í sumar tvo sóknarmenn frá WBA úr enska boltanum. Leikmennirnir sem um ræðir heita Lateef Elford-Alliyu og Kayleden Brown en þeir eru báðir á átjánda aldursári.