Kátir krakkar í kofabyggð
Kofabyggðin í Grindavík nýtur mikilla vinsælda. Strax við opnun byggingarsvæðisins á mánudag voru mættir þangað um 30 krakkar vopnaðir hömrum og nöglum, tilbúnir til að ráðast í kofabyggingar.
Hjalti Steinar Guðmundsson, umsjónarmaður opinna og grænna svæða í Grindavík, hefur kofabyggðina á sinni körfu. Hann átti alls ekki von á þessum fjölda barna í smíðavinnuna og því þurfti mun meira byggingarefni á staðinn en gert var ráð fyrir.
Gömul vörubretti eru uppistaðan í byggingarefninu en einnig hefur Hjalti þurft að fara nokkrar ferðir í BYKO í Reykjanesbæ til að taka með alvöru timbur til kofabyggina.
Kofabyggðin í Grindavík er hugsuð fyrir krakka sem eru átta ára og eldri en smíðavöllurinn er staðsettur á reit suðvestan megin við Stakkavík.
Smíðavöllurinn verður starfræktur 4 daga vikunnar, frá mánudegi til fimmtudags, frá kl. 13:00 til 15:00. Umsjón er í höndum flokkstjóra vinnuskólans. Allt timbur er á staðnum en krakkarnir þurfa sjálf að skaffa bæði verkfæri og nagla.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í kofabyggðinni á mánudaginn í síðustu viku þegar kofasmíðin var komin vel af stað. VF-myndir: Hilmar Bragi