Jón Bjarni og Borgar sigurvegarar í Nesbyggðarrally - video
Jón Bjarni Hrólfsson og Borgar Ólafsson á Subaru Impreza STI eru sigurvegarar í Nesbyggðarrally Akstursíþróttafélags Suðurnesja sem fram fór á Suðurnesjum í dag. Í öðru sæti urðu Hilmar Bragi Þráinsson og Stefán Jónsson á MMC Lancer. Þriðju eru Marian Sigurðsson og Jón Þór Jónsson á MMC Evo VIII. Úrslitin eru þó birt með fyrirvara en formleg úrslit og verðlaunaafhending verður á Manhattan í Keflavík í kvöld kl. 21:00.
Víkurfréttir fylgdust með þremur fyrstu sérleiðum Nesbyggðarralls AÍFS og meðfylgjandi myndskeið er það fyrsta af þremur sem tekin voru af myndatökumanni Sjónvarps Víkurfrétta í keppninni. Hér er ekið um Pattersonflugvöll, sem er gamall og yfirgefinn flugvöllur þar sem sprengjugeymslur Varnarliðsins voru einnig á sínum tíma.
Það gekk mikið á í keppnisbrautinni á Patterson og oft rauk myndarlega úr hjólbörðum keppnisbílanna.
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson