Þriðjudagur 25. desember 2018 kl. 07:00

Jólaland Elgsins

Náttúruljósmyndarinn Ellert Grétarsson hefur haft í nógu að snúast á árinu. Nýverið er komin út glæsileg ljósmyndabók um náttúru og undur Reykjanesskagans. Bókin hefur fengið góðar viðtökur og selst vel. Að baki henni liggur áralöng vinna í ljósmyndaferðum um Reykjanesskagann.
 
Ljósmyndun er ekki það eina sem Ellert tekur sér fyrir hendur í frítíma sínum. Fyrir þremur árum átti Ellert gott frí í aðdraganda jóla og ákvað þá að gera jólafígúrum sem hann átti, svokölluðum jólanissum, aðeins hærra undir höfði og byrjaði smíði á jólaþorpi fyrir þá. Nissana hafði hann keypt í kaupfélaginu á Egilsstöðum fyrir 20 árum. Smíði jólaþorpsins hófst og gekk vel. Fyrsta húsið var klárað fyrir jólin 2016 og jólaissarnir voru komnir með skjól. 
 
Ellert vildi halda verkefninu áfram en fann engan söluaðila fyrir Nissana á Íslandi. Hann hafði því upp á framleiðandanum í Danmörku og sýndi honum jafnframt myndir af því sem hann var að gera. Danirnir heilluðust af jólaþorpinu og það næsta sem gerðist var að Ellert fékk óvænt kassa með póstinum frá Danmörku. Tíu kílóa pakka, fullum af jólanissum. Nú voru góð ráð dýr og orðinn húsnæðisvandi hjá jólanissunum hans Ella. Það var því ekki um neitt annað að ræða en að halda byggingu þorpsins áfram og nú hefur hvert húsið risið á fætur öðru.
 
Allt þetta ár hefur Ellert unnið að byggingu bakarís. Smíðin er mikil nákvæmnisvinna enda allt smátt í sniðum og sumt þarf að smíða undir stækkunargleri. Mikið er lagt upp úr öllum smáatriðum. Allar bækur og hljómplötur hafa kápur og umslög sem eiga sér fyrirmyndir í mannheimum. Auk mikillar smíðavinnu er einnig mikið lagt upp úr lýsingu og því hefur Ellert lagt rafmagn í allt þorpið og litríkar smáperur lýsa allt upp. Kertaljós eru með tifandi perum og myllan og mylluhjólið snúast fyrir tilstuðlan smátölva.
 
Aðspurður hvort áframhald verði á smíðinni þá sagði Ellert að hann hefði mikinn áhuga á því að halda áfram verkefninu en hins vegar taki jólaþorpið talsvert pláss og spurning hversu mikið sé hægt að stækka það. Hins vegar sé kominn tími á að endurbyggja fyrsta húsið í þorpinu og aðlaga það að því sem síðar var smíðað. Það verður því verkefni næsta árs.
 

Jólaland Elgsins 2018