Jóhann Rúnar: Bannað að gefast upp
Jóhann Rúnar Kristjánsson er Suðurnesjamaður ársins 2009 hjá Víkurfréttum. Jóhann hefur allt frá því hann lamaðist alvarlega í umferðarslysi 1994 sýnt mikinn styrk og hugrekki í endurhæfingu sinni. Þannig hefur hann verið öðrum gott fordæmi um að gefast ekki upp því það sé allaf hægt að sjá ljósið.
Jóhann hefur tekið þátt í baráttu fatlaðra á margvíslegan hátt og vakið athygli á hvernig bæta megi aðstöðu þeirra í samfélaginu. Hann hefur líka reglulega heimsótt fólk á sjúkrastofnanir sem hefur lent í svipaðri aðstöðu og hjálpað því fyrstu skrefin sem eru svo erfið. Þær heimsóknir hafa verið mönnum til lífs, eins og fram kemur í viðtali við Jóhann Rúnar sem hér fer á eftir.
Í endurhæfingu sinni sótti Jóhann í íþróttir og með seiglu og sókn hefur hann náð undraverðum árangri í borðtennis. Þannig hefur hann á enn annan hátt verið fötluðum mikil hvatning um að það sé hægt að lifa sómasamlegu lífi eftir fötlun. Síðasta ár er án efa það stærsta hjá Jóhanni á íþróttasviðinu. Hann fór á átta mót erlendis og komst í úrslit á sjö þessara móta. Jóhann er á meðal 20 bestu borðtennisleikara í heiminum í dag í hópi fatlaðra.
Jóhann var á dögunum kjörinn íþróttamaður fatlaðra í Reykjanesbæ 2009 og varð annar í kjöri á íþróttamanni Reykjanesbæjar, sem lýst var á gamlársdag sl. Árangur Jóhanns á íþróttasviðinu á síðasta ári sætir tíðindum, því hann varð Íslandsmeistari í fyrsta flokki karla í borðtennis í keppni ófatlaðra.
Jóhann Rúnar ásamt Guðrúnu Önnu dóttur sinni.
----------------------------
Á TOPPINN UM DJÚPA DALI
Leiðin á toppinn hjá Jóhanni hefur síður en svo verið bein og breið, heldur hefur hún legið um djúpa dali. Sá dýpsti kom árið 1994 og annar tíu árum síðar. Jóhann hafi spurt sig um tilganginn með lífinu, en hann hafi hins vegar lært það að það má ekki gefast upp, hversu dauft sem ljósið sé við hinn enda ganganna. Sjálfur segir Jóhann að sólargeisli hafi komið inn í líf sitt árið 1998, sem sé honum allt. Þá fæddist honum dóttir, sem sé það mikilvægasta í lífi hvers manns, að eignast barn. Þá hafi hann lært það að horfa fram á veginn í lífinu en ekki til baka.
- Byrjum á að rifja upp þennan örlagaríka dag þegar þú lendir í slysinu?
„Það var í maí 1994 sem ég ákvað að taka rúnt á mótorhjóli sem félagi minn átti. Ég ætlaði að fara í gegnum Sandgerði og Garð og svo aftur heim. Ég komst hins vegar aldrei lengra en í Sandgerði. Þar varð ég fyrir því að keyra á kyrrstæðan vörubíl vegna þess að það var svínað fyrir mig. Allt í einu lá ég á jörðinni og fann hvernig búið var að slökkva á skrokknum frá hálsi og niður. Ég líki þessu alltaf við eins og búið sé að slökkva á kaffivél, bara „turn off“. Ég fann það þarna á jörðinni að þetta var mjög alvarlegt og hugsaði að þetta væri eitthvað sem ætti eftir að hafa afleiðingar og eitthvað sem plásturinn læknaði ekki“.
- Þegar þú hugsar til baka, hefðir þú getað komið í veg fyrir þetta á einhvern hátt?
„Nei. Þetta er bara óhapp. Það var enginn glæfragangur. Ég var búinn að vera að keyra eins og vitleysingur þarna á undan á Sandgerðisveginum, taka framúr bílum á alltof mikilli ferð, en inni í bæjarfélaginu var ég bara á rúntinum. Ég ætlaði að fara að beygja inn á plan en þá kemur bíll og svínar fyrir mig og ég fipast við aksturinn. Ég hef margoft hugsað „ef“ og „hefði ég ekki farið rúntinn“ og allt þetta. Ég strokaði þær hugsanir fljótlega út og ákvað að keyra mig bara áfram“.
- Hvernig voru næstu dagar og mánuðir eftir slysið?
„Þeir breyttust úr því að vera hvítt yfir í svart. Allt í einu var ég farinn að liggja mikið í rúminu ósjálfbjarga. Fyrstu tveir mánuðirnir fóru í það að reyna að ná því að raka sig sjálfur og reisa sig við“.
SEM BETUR FER HEF ÉG HENDURNAR
Jóhann segir að fljótlega hafi hann fengið mátt í hendurnar að nýju. Þær hafi marist mikið við höggið frá stýri mótorhjólsins, ásamt því sem efri hluti brjóstkassans hafi marist illa. Með æfingum á spítalanum og á Grensásdeildinni hafi Jóhann fengið máttinn. „Sem betur fer hef ég hendurnar,“ segir Jóhann og er þakklátur fyrir að geta notað þær við hið daglega líf og meira til, eins og við komum að síðar.
Jóhann segir að hann hafi fengið óljós svör hjá læknum með batahorfur eftir slysið. Hann hafi spurt hvort mænan væri marin eða í sundur, en ekki fengið fullnægjandi svör. Jóhann segist í dag vera ánægður með þau svör sem hann hafi fengið á sínum tíma, því hann hafi með þeim getað lifað í voninni „að geta staðið upp úr rúminu, rölt út í bíl og farið heim, sem var alls ekki slæmt, því maður keyrði sig áfram á því“.
Jóhann segir að við svona áfall sé mikilvægt að hafa von og bjartsýni og hugsa það að ástandið sé ekki alveg dauði og djöfull. Þá hafi fjölskylda hans sýnt honum mikinn stuðning og rekið hann áfram. „Ég er heppinn að hafa góða fjölskyldu og vini á bakvið mig“.
Það tók Jóhann tvær vikur að ná að koma höndum upp að andlitinu og síðan þá hefur leiðin legið upp á við og hann er ennþá að bæta sig með styrktarþjálfun.
Daglegt líf Jóhanns breyttist mikið við slysið. Sama dag og slysið varð ætlaði Jóhann að skoða íbúð ásamt kærustu sinni á þeim tíma, en þau ætluðu að taka stóra skrefið að flytja úr foreldrahúsum og fara að búa. Jóhann var sjómaður á þessum tíma og segist hafa fundið sig vel í því starfi. „Starfsframinn á sjónum hvarf. Ég var búinn að læra grunndeild rafiðna, sem hvarf líka,“ segir Jóhann.
Jóhann Rúnar ásamt Guðrúnu Önnu dóttur sinni og foreldrum sínum, Kristjáni Gunnarssyni og Guðrúnu Önnu Jóhannsdóttur.
----------------------------
SÓLARGEISLI INN Í LÍF JÓHANNS
Síðar slitnar upp úr sambandi hans og kærustunnar. Áður en það gerðist kom þó sterkur sólargeisli inn í líf Jóhanns, því þau eignuðust barn saman. Læknar höfðu alls ekki útilokað það að Jóhann gæti getið barn, þrátt fyrir að vera lamaður frá brjósti og niðurúr. Árið 1998 kom Guðrún Anna í heiminn og hefur alla tíð verið mikill félagi og vinur föður síns.
Jóhann segir fötlun sína einnig hafa leitt af sér nýja góða vini og þá hafi hann farið að gefa íþróttum meiri gaum. Fyrst og fremst hafi honum þótt gott að komast út af sjúkrahúsinu og út í lífið að nýju, geta stundað vinnu og búið á eigin heimili, geta stundað æfingar og ekið um á eigin bíl. „Það að vera sjálfbjarga og sleppa við að vera inni á einhverri stofnun er bara jákvætt“.
- Hvernig eru aðstæður fyrir fatlaða á Íslandi í dag?
„Þær eru alls ekki nógu góðar en hafa farið batnandi. Þessi 15 ár sem ég hef verið að göslast, þá hefur orðið breyting til batnaðar. Það er orðið betra að komast inn á ýmsa staði og um göturnar, en það vantar mikið uppá víða. Ég reyni að leggja mitt af mörkum hér í Reykjanesbæ og hef verið að taka út lífæð bæjarins og reyni að benda á hvað mætti betur fara“.
Jóhann er fyrsti mikið fatlaði einstaklingurinn á Suðurnesjum sem býr í eigin íbúð. Ástæðuna segir hann vera þá að hann hafi ekki viljað flytja til Reykjavíkur. Þá hafi hann kynnst lífi lamaðs einstaklings sem átti sitt heimili á sjúkrahúsinu í Keflavík og það var líf sem Jóhann gat ekki hugsað sér. „Þess vegna var tekin sú afstaða og ákvörðun um að ég færi í mína eigin íbúð. Við gerðum hana þannig að hún væri aðgengileg fyrir hjólastól og ég sé ekki eftir því í dag“.
Jóhann segir íbúðina vera útbúna þannig að allt aðgengi sé auðvelt og það kemur ekki í veg fyrir að hann geti eldað, vaskað upp eða sett í þvottavél og þurrkara.
VITJAR EINSTAKLINGA Í SÖMU STÖÐU
Jóhann lætur málefni þeirra sem lamast í slysum sig varða. Hann fylgist með fréttum og er í góðu sambandi við starfsfólk endurhæfingardeildarinnar á Grensási. Þangað fer hann tvisvar í viku og heyrir vel hvað er að gerast. „Þá hef ég bara vippað mér að viðkomandi og farið út í spjall. Ástæðan er sú að þegar ég lá þarna inni, þá vantaði mig einhvern til að spjalla við og fá svör við ýmsum spurningum sem eingöngu þeir sem hafa lent í svona löguðu geta svarað“. Hann segir þetta vera eitthvað sem hann hafi fundið hjá sjálfum sér. Hann sé ekki á launum við þetta, en mæti tvisvar í viku og talar við það fólk sem er í svipaðri stöðu og hann var og er í.
„Ég er að hitta fólk sem liggur í rúminu og er að velta öllum þessum spurningum fyrir sér. Ég ræði fyrst við hjúkrunarfræðinga eða ættingja og fólkið í kring. Það gerist ekki alltaf eitthvað strax, heldur bara þegar þeir slösuðu vilja. Þá tölum við allt öðruvísi saman heldur en við erum að gera hér í dag, ég og þú“.
Jóhann hefur bjargað mannslífi og vitnisburður um það hefur verið fluttur á fundi hjá Lionsklúbbi Keflavíkur fyrir fáeinum árum. Þangað kom lamaður maður eftir umferðarslys og flutti erindi um líf þeirra sem eru bundnir við hjólastól vegna lömunar. Viðkomandi aðili sagði á Lionsfundinum í Keflavík að hann hafi verið að leggja á ráðin með það að stytta líf sitt þegar Jóhann hafi komið inn í líf sitt með uppbyggjandi og jákvætt viðhorf.
HLAUT ALAVARLEGAN BRUNA
Margur gæti haldið það að lömun frá brjósti og niður í tær sé nógu þungur baggi að leggja á einn einstakling, en Jóhann átti heldur betur eftir að taka út vítiskvalir sem lögðust á líkama og sál. Hann getur þar þakkað lömun sinni að hann fann ekki sársaukann, en sjúkrahúslegan í framhaldinu reyndi mjög á sálartetrið.
Síðla árs 2004 var Jóhann farþegi í bifreið á Reykjanesbrautinni þegar sætishitari í bílnum bilaði með hræðilegum afleiðingum. Sætið var orðið yfir 70°C heitt. Jóhann fékk þá tilfinningu að hann væri að fá flensu en áttaði sig ekki á því að hann var að hljóta alvarleg brunasár þar sem hann sat í sætinu og brann alveg inn að beini. Það átti í raun bara eftir að blossa upp eldur í sætinu en nokkrir bílar sömu tegundar brunnu í Ameríku vegna galla í sætishitara. Jóhann endaði á sjúkrahúsi með alvarleg brunasár sem tók um átta mánuði að láta gróa og á þeim tíma varð hann að liggja á maganum og hliðinni og segist aðspurður hafa verið við það að gefast upp. Hann hafi hins vegar verið að blása öðrum baráttu í hjarta og því ákveðið að bíta á jaxlinn sjálfur og sigrast á aðstæðunum. Afleiðingar þessa óhapps hafi í raun verið erfiðari en þær fyrri.
Jóhann Rúnar er öflugur með borðtennisspaðann og er einn af 20 bestu í heiminum í dag í sínum flokki.
----------------------------
STERKUR TVISTUR
Þegar þarna er komið við sögu er Jóhann farinn að stunda borðtennis af kappi. Það ævintýri byrjaði á Reykjalundi en þar er spilað borðtennis í hádeginu alla virka daga og segir Jóhann að það hafi komið upp keppni með það að vinna þjálfarana. „Þeir voru miklu betri en ég fyrst, en áður en tímabilinu mínu þar lauk, þá var ég farinn að vinna þjálfarana“.
Jóhann segir að hann hafi viljað gera eitthvað meira en að spila borðtennis á Reykjalundi og því hafi hann kynnt sér íþróttir fyrir fatlaða í Reykjavík. Hann fór því að stunda borðtennisæfingar þar.
„Menn ráku augun í einhverja borðtennishæfileika hjá mér og því var ég sendur erlendis í stöðumat í fötlunarflokki. Þar kemur í ljós að ég er í góðum flokki eða sterkur tvistur og þá fór boltinn að rúlla og hefur ekki stoppað síðan“.
Jóhann segir borðtennisíþróttina gefa sér mikið „og það er líka gaman að vera afreksíþróttamaður og einn af 20 bestu í heiminum,“ segir Jóhann sem segir árangurinn í íþróttinni góðan fyrir sjálfstraustið og að æfingarnar skili miklu fyrir hans heilsu. Þá sé félagsskapurinn og allt í kringum íþróttina frábært. Jóhann æfir sex daga vikunnar og oftast tvisvar á dag. Hann blandi saman lyftingum og líkamsrækt og spili þá borðtennis um kvöldið.
EKKI Á MÓTIÐ TIL AÐ VERA MEÐ!
Titlarnir eru ófáir sem Jóhann hefur landað á ferlinum og sigrar á hinum ýmsu mótum. Löngunin í titil á „stóru stóru mótunum“ er mikil og nefnir Jóhann þar Ólympíuleika, heimsmeistaramót og Evrópumót. „Ég ætti nú að geta tekið út úr bankanum fljótlega,“ segir Jóhann, sem á von á því að hann sé að stimpla sig inn á heimsmeistaramót í Suður-Kóreu.
„Ég ætla ekki að fara þangað til að vera með - ég ætla að ná árangri þar og koma heim með einhver verðlaun.“
Það er síður en svo gefins að taka þátt í mótum erlendis og fyrir Jóhann er allur kostnaður tvöfaldur, því hann þarf að taka með sér aðstoðarmann í allar ferðir, sem er þá einnig þjálfari og hjúkrunarfræðingur. Jóhann segir þetta kostnað sem hann þurfi að safna fyrir en sem betur fer sé hann með góða aðila sem styrkja hann, annars væri þetta ekki hægt en vissulega sé það ekki auðvelt. Íþróttasamband fatlaðra styðji þó vel við bakið á sér og nú hin síðari ár sé hann einnig að fá stuðning frá Íþróttasambandi Íslands úr Ólympíusjóðnum. Þá segist Jóhann vera með mjög gott bakland á Suðurnesjum, þannig að hann sér að koma út á núlli. Það hafi þó ekki alltaf verið þannig og eitt árið hafi hann verið í tæplega tveggja milljóna króna skuld eftir keppnisárið, en það hafi tekist að leiðrétta þá stöðu í samstarfi við góða aðila.
MEÐ MARKMIÐ FRAM YRIR ÁRIÐ 2012
- Nú ertu farinn að spila borðtennis við ófatlaða. Ertu ekki kominn framúr þér?
„Fyrst ætlaði ég að taka þátt í þessum mótum hérna heima til að safna reynslu og spila við einhverja sem væru betri en ég. Þarna sá ég fljótlega glufu þar sem ég gæti unnið titla. Í fyrra tók ég þátt í Íslandsmóti hjá ófötluðum og varð Íslandsmeistari í 1. flokki karla sem er einsdæmi og hefur aldrei áður gerst á Íslandi. Það kom mér skemmtileg á óvart. Þarna var hins vegar keppnismaðurinn í mér kominn upp á efstu tröppu og ég gaf ekkert eftir og vann sannfærandi titil“.
Jóhann segir að það geti oft verið mikið fjör við borðtennisborðið og það hafi komið fyrir að hann endi í gólfinu. Þá þarf að stoppa leikinn og koma honum aftur í hjólastólinn.
- Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
„Ég vil halda eitthvað áfram í sportinu og gera góða hluti þar. Ég hef sett mér markmið fram yfir Ólympíuleikana í London 2012. Eftir það geri ég ráð fyrir því að slaka á“.
HORFUM FRAMÁVIÐ
- Að endingu. Hvað er það fyrsta sem þú segir við fólk sem þú ert að hitta í svipuðum sporum og þú í heimsóknum þínum á spítalana?
„Ég bið fólkið um að spyrja mig að öllum þeim spurningum sem því dettur í hug. Yfirleitt kemur ekkert spurningaflóð við fyrsta samtal, en í kjölfarið fylgir oft símtal eða í næsta samtali, þá koma spurningarnar. Ég reyni að opna mig alveg og tilbúinn að láta allt flæða sem getur látið gott leiða af sér“.
- Hvað leggur þú mesta áherslu á?
„Það er að það má aldrei gefast upp, hversu lítið sem ljósið er í hinum enda ganganna. Það er bannað að gefast upp. Það á að horfa framávið en ekki til baka,“ segir Jónann Rúnar Kristjánsson, maður ársins 2009 á Suðurnesjum.
Viðtal: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson