Jákvæð þróun í atvinnumálum
Við áramót - Guðný María Jóhannsdóttir
Eftirminnilegast frá árinu 2016 er mjög jákvæð þróun í atvinnumálum á svæðinu okkar. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig staðan hefur breyst frá því að vera að ræða nauðsyn þess að fjölga störfum á svæðinu yfir í að allir sem vilja og geta unnið geti fengið vinnu.
Og svo verð ég að nefna Keflavíkurflugvöll þar sem við tókum á móti 5 milljónasta farþeganum þann 20.september og svo 6 milljónasta farþeganum þann 10. nóvember. Í lok árs höfðu 6,8 milljónir farþega farið í gegnum flugvöllinn okkar, sem er frábær árangur, segir Guðný María Jóhannsdóttir, aðstoðar framkvæmdastjóri Þróunar og stjórnunar hjá Isavia.
Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016
Kjartan Már Kjartansson kemur fyrst upp í hugann þegar spurt er um áberandi einstakling í samfélaginu okkar en hann hefur verið mikið í sviðsljósinu í tengslum við skuldastöðu Reykjanesbæjar og samningaviðræður við kröfuhafa.
En nú horfir til betri vegar og ég trúi því að Kjartan Már verði áberandi í nýju ári fyrir eitthvað eitthvað jákvæðara og skemmtilegra.
Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?
Atvinnumálin. Flugvöllurinn og tækifærin honum tengd, Helguvík og uppbyggingin sem þar er í gangi, Reykjanesbrautin og umræðan um að klára tvöföldun hennar. En það sem mér finnst skipta mestu máli í tengslum við atvinnumálin er jákvæðnin og bjartsýnin sem nú ríkir í okkar góða samfélagi.
Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?
Ég sé ekkert nema bjarta tíma framundan á okkar svæði. Hér eru mestu tækifærin á landsvísu þegar horft er til tækifæra til atvinnuuppbyggingar. Við erum hér með alþjóðaflugvöllinn sem áætlað er að geti skapað 400 til 500 störf á ári gangi áætlanir um vöxt til framtíðar eftir. Á Suðurnesjum er blómlegur sjávarútvegur og mikil tækifæri í frekari vinnslu og flutningi á ferskum sjávarafurðum með flugi út á markaðina. Codland í Grindavík er gott dæmi um framþróun í íslenskum sjávarútvegi á okkar svæði sem ég hef mikla trú á að eigi eftir að blómstra enn frekar. Og svo eru á okkar svæði gríðarleg tækifæri og þekking í orkuvinnslu á landinu.