Hyldjúp sprunga í knattspyrnuhúsinu Hópinu
Hyldjúp sprunga liggur í gegnum knattspyrnuhúsið Hópið í Grindavík. Það er búið að liggja ljóst fyrir í nokkurn tíma að töluverðar skemmdir væru á húsinu en í dag var gervigrasinu flett ofan af sprungunni.
Þegar grasinu var flett af kom í ljós sprunga sem er á kafla allt að tíu metra djúp. Ljóst er að knattspyrnuhúsið er mikið skemmt eftir hamfarir síðustu vikna. Auk þess að sprungan er í gólfi þá er þak hússins skakkt og stórt gat er komið á gafl hússins.
Þegar unnið var við sprunguna í dag voru allir tengdir líflínum og enginn fór nálægt sprungunni öðruvísi en að vera í viðeigandi öryggisbúnaði.
Meðfylgjandi myndir og myndskeið fengu Víkurfréttir frá Almannavörnum nú undir kvöld.