Sunnudagur 2. desember 2018 kl. 12:48

Hver er framtíð aðalverslunargötu Reykjanesbæjar?

Reykjanesbær hefur undanfarin tíu ár gengið í gegnum miklar breytingar. Bæjaryfirvöld þurftu að herða sultarólina og fresta mörgum framkvæmdum vegna bágrar fjárhagsstöðu og óheyrilegra skulda. Næstum öll orka bæjaryfirvalda fór í að finna út hvernig rétta mátti við fjárhagsstöðu bæjarins. Nú tíu árum seinna er erfiðið farið að skila árangri og bæjaryfirvöld hafa meira tóm til að velta því fyrir sér hvert bærinn á að stefna í framtíðinni. Gæluverkefnum er farið að fjölga. Nú gefst aftur tími til að láta sig dreyma um framtíð bæjarins. Fólk spyr sig hvernig bærinn á að líta út í framtíðinni, hvers konar bæ vilja bæjarbúar eignast og hvernig menningu?

Framtíð Hafnargötu

Á sama tíma og bæjaryfirvöld stóðu frammi fyrir erfiðu verkefni í fjárhagsrekstri bæjarins þá fjölgaði bæjarbúum um næstum helming á þessum tíu árum. Íbúum hefur fjölgað það mikið að Reykjanesbær verður stærri en Akureyrarbær innan skamms, ef fram fer sem horfir. Allt í einu standa menn frammi fyrir því að innviðirnir eru að þróast einhvern veginn og búa þarf til stefnu, marka leiðina sem fólkið vill fara. Um miðjan nóvember var íbúum Reykjanesbæjar boðið til opins fundar um skipulagsmál en þar gafst fólki kostur á að kynna sér og leggja til málanna, hvernig bæjaryfirvöld sjá fyrir sér bæinn þróast í nánustu framtíð.

Verslanir við Hafnargötu hafa verið umfjöllunarefni Víkurfrétta undanfarið og því lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig bæjaryfirvöld sjá aðalverslunargötu bæjarins þróast. Teknir voru tali þeir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, og Gunnar K. Ottósson, skipulagsfulltrúi bæjarins.



„Hafnargatan er vinsælasta samtalsefnið þegar við fáum einstaklinga á sviði hönnunar í heimsókn því margir sjá hvernig útfærsla götunnar getur verið meira skapandi og skemmtileg.

„Hafnargatan er vinsælasta samtalsefnið þegar við fáum einstaklinga á sviði hönnunar í heimsókn því margir sjá hvernig útfærsla götunnar getur verið meira skapandi og skemmtileg. Við sjáum þetta einnig. Gatan felur í sér mörg tækifæri til framtíðar bæði fyrir verslunareigendur og veitingahús. Við gerum það sem við getum til að styðja við góðar hugmyndir þeirra sem eiga hagsmuna að gæta á aðal viðskiptagötu bæjarins. Fólk þarf einnig að sýna frumkvæði og koma til okkar með hugmyndir. Bærinn rekur ekki fyrirtækin á Hafnargötu en við getum skapað ramma til stuðnings miðbænum. Hlutverk sveitarfélaga er að leggja grunn að uppbyggingu,“ segir Guðlaugur og Gunnar heldur áfram: „Já, þetta er spurning um skipulagsmál núna og til framtíðar. Á undanförnum tíu árum hafa hlutirnir jafnvel drabbast niður við Hafnargötu en við megum ekki gleyma því að á sama tíma hefur þjóðin haft nóg með sitt frá efnahagshruninu. Það hefur samt ýmislegt jákvætt gerst. Nú erum við að rétta úr kútnum og nú gefst okkur meira tóm til þess að stefna í ákveðna átt. Hvert viljum við fara? Fólkið sem rekur fyrirtækin í miðbænum þarf einnig að marka sér stefnu sjálft. Bærinn hefur haft nóg með sitt við að rétta úr fjárhagsstöðu bæjarins. Niðurskurður alls staðar. Staðan er þannig núna að við viljum sjá Hafnargötuna þróast sem skemmtilegan miðbæjarkjarna. Það er allt að breytast, verslunarhættir eru að breytast alls staðar. Við sjáum hvernig Laugavegurinn og Skólavörðustígur hafa þróast eftir hrun á sama tíma og ferðamönnum hefur fjölgað mikið. Nú sérðu þarna litlar verslanir í bland við veitingahús og kaffihús. Hérna þurfum við að horfa á hvernig markaðurinn, fólkið sjálft, tekur völdin. Hvað gera íbúarnir? Styðja þeir við verslun í heimabyggð? Þar liggur grunnurinn að framtíð verslunar við Hafnargötu og í verslunarkjarna Krossmóa og að Fitjum.“

Ótrúlega smekkleg og flott Hafnargata

Blaðamanni voru sýndar nýjar skipulagsteikningar af Hafnargötu sem voru einkar aðlaðandi. Þarna mátti sjá verslanir, veitingahús og kaffihús á neðri hæð og íbúðir á efri hæð. Hugmyndin er að blanda saman íbúðarbyggð og verslunarhúsnæði. Sumar byggingar voru endurgerðar eða hreinlega byggðar strax í gömlum stíl á meðan aðrar byggingar voru nýtískulegri. Maður fyllist bjartsýni fyrir hönd Hafnargötu eftir að hafa séð þessar frábæru skipulagsteikningar og hvernig þær tengjast Duus-húsunum. Hafnargatan verður fallegt andlit bæjarins í framtíðinni.

Reykjanesbær er að rétta úr kútnum. Fólk sér hvernig gamla hverfið í kringum Duus-húsin hefur þróast í gegnum árin en þar hefur bærinn lagt áherslu á að varðveita gömlu húsin og skapa þar í leiðinni menningarsetur bæjarins. Svona hugmyndir hefðu aldrei náð fram að ganga fyrir fimmtíu árum því þá voru gömul hús bara rifin en í dag vilja flestir varðveita gamla hluta bæja sinna. Hafnargata er á dagskrá bæjaryfirvalda. Verslunareigendur verða einnig að standa vaktina saman og marka sér spor til framtíðar. Hvernig vill fólk sjá götuna þróast?

Verslunareigendur verða einnig að standa vaktina saman og marka sér spor til framtíðar. Hvernig vill fólk sjá götuna þróast?

„Við viljum að Hafnargatan verði miðjupunktur bæjarins og að hann verði efldur. Við trúum það sterkt á framtíð Hafnargötunnar að við viljum taka áhættuna og sjá hana þróast sem lifandi verslunargötu. En vilja þeir sem eiga húsnæði við Hafnargötu það einnig? Eru menn tilbúnir að láta verslunarhúsnæði standa tómt, þar til einhver eldhugi tekur húsnæðið á leigu og stofnar þar fyrirtæki? Eru menn tilbúnir að setja strangari kvaðir á húsnæði við Hafnargötu? Við viljum sjá verslunarhúsnæði á neðri hæð þar sem hefðbundið verslunarhúsnæði hefur verið árum saman. Vilja menn standa saman að þessari framtíðarsýn götunnar, eigendur húsnæðis og fyrirtækja? Verslunarsamtökin Betri bær hafa gert marga góða hluti til þess að lífga upp á Hafnargötuna. Þau taka sig saman og bjóða upp á tilboðskvöld og tilboðsdaga sem lokkar íbúa niður í bæ. Við höfum reynt að styðja við fyrirtækin við Hafnargötuna eftir fremsta megni. Ljósanótt er alfarið á vegum bæjarins en þar hafa verslanir verið duglegar að vera með tilboð til þeirra sem taka þátt í þessari stærstu hátíð ársins. Þorláksmessukvöld er ótrúlega skemmtilegt samtaka verkefni verslunareigenda. Við þurfum öll að standa saman, ræða saman, þeir aðilar sem eiga hagsmuna að gæta í fyrirtækjarekstri og við hjá bænum. Nú er lag,“ segir Guðlaugur.

Samstaða um að efla verslun heima

„Það þarf að vera samstaða um framtíðarsýn verslunar í heimabyggð. Við þurfum að koma saman og búa til draumsýn, t.d. um Hafnargötuna. Þetta þarf að byrja einhvers staðar og það er ágætt að byrja á því að tala saman. Það er svo margt hægt að gera. Fleiri tilboðsdagar lokkar fólk til að kaupa meira. Minni verslunarrými við Hafnargötu gæti verið farsælla. Fólk þarf líka að sýna frumkvæði. Þegar við horfum til Hafnarfjarðar þá sjáum við hvernig þeim bæ hefur tekist að efla verslun í heimabyggð þrátt fyrir nálægðina við höfuðborgina. Við getum þetta einnig. Við getum þess vegna lokkað fólk úr Reykjavík hingað, ekki bara heimafólk. Það sjáum við svo vel á Ljósanótt þegar bærinn fyllist af fólki alls staðar frá. Þar erum við að skapa segul sem vekur athygli á bænum okkar. Það er talað um Kringlukast. Má ekki hafa einhvers konar Hafnargötukast? Það þarf að kveikja í fólki. Má ekki fjölga viðburðum við Hafnargötu? Þar getur Betri bær sýnt samstöðu og bæjaryfirvöld komið inn í ef þarf en fyrirtækin þurfa fyrst að eiga frumkvæði. Þegar ég flutti hingað 2001 þá voru tíuþúsund íbúar í Reykjanesbæ Nú hefur allt breyst. Íbúasamsetningin er fjölbreytilegri, íbúar af erlendum uppruna eru rúmlega 20% og íbúar af höfuðborgarsvæðinu hafa flutt hingað suður. Þetta kallar á breytingar á innviðum. Fólk úr Reykjavík sem hefur t.d. vanist því að ferðast með strætó, ætlast til þess að strætó sé stundvís og að ákveðin strætómenning sé til staðar hér einnig. Vöruúrval matvöruverslanna þarf að vera jafnmikið að gæðum og í Reykjavík. Það þýðir ekkert að bjóða fólki upp á lélega ferskvöru, fólk vill t.d. fá jafn ferskt grænmeti og borgarbúar eiga kost á. Þegar íbúarnir fá jafn góða þjónustu og svipað vöruúrval og fæst í borginni, þá vill fólk versla heima. Hafnargatan og verslunarkjarnar bæjarins njóta þess að hér búa mun fleiri en áður. Það eru miklir möguleikar alls staðar, bærinn er orðinn miklu stærri. Fleiri íbúar kalla á meiri verslun. Fólk þarf að átta sig á þessu, að tækifærunum hefur fjölgað hérna,“ segir Gunnar.

Fleiri íbúar kalla á meiri verslun. Fólk þarf að átta sig á þessu, að tækifærunum hefur fjölgað hérna.

Hér eru spennandi hugmyndir við Hafnargötu 22-24. Verslunin Bónus er á þessu svæði lengst til vinstri en sést ekki á þessari teikningu.



Draumar eru til alls fyrstir

Þegar hlustað er á þessa starfsmenn bæjarins þá getur maður ekki annað en smitast af eldmóði þeirra og áhuga á að gera elstu verslunargötu bæjarins meira lifandi. Hugmyndirnar flugu yfir borðið og reynt var að fanga þær á lofti. Farið var víða í umræðunni. Ein þeirra snéri að eflingu túristaverslunar hér niðri í bæ. Guðlaugur sagðist sjá fyrir sér skrautlega rútu eins og fólk hefur séð á Indlandi. Láta þessa rútu aka á hálftíma fresti á milli flugstöðvar og Hafnargötu til þess að gefa túristum kost á að versla niðurfrá og sjá brot af bænum í leiðinni. Fólkið gæti treyst því að rútan væri á stanslausu ferðalagi á milli þessara tveggja punkta og gæti notað tímann ofan í bæ á veitingahúsi eða í verslunarleiðangri á meðan það biði eftir fluginu sínu. Rútan skrautlega myndi spila tónlist hátt í hátalarakerfi svo hún vekti athygli fyrir utan flugstöðina og lokkaði fólk um borð. En þarna þarf leyfi að koma til, þeirra sem stjórna útivist og öryggismálum ferðamanna í Leifsstöð. Það væri flott að ferðamenn hefðu þetta val. Er ekki allt hægt þegar viljinn er fyrir hendi?

Viðtölin undanfarið við verslunareigendur hafa vakið mjög jákvæð viðbrögð lesenda Víkurfrétta. Margir átta sig nú betur á því sem í boði er við Hafnargötuna. Framtíðin götunnar mun þó líklega ráðast eftir því hvernig Suðurnesjamenn sækja hana.

Einn góður punktur kom frá ungri konu sem sagðist vilja sjá verslanir Hafnargötu einnig á netinu. Hún sagðist þá betur geta fylgst með nýjum vörum og tilboðum frá þeirri verslun. Hún hafði orð á því að þær verslanir sem bjóða upp á Facebook-síðu eða heimasíðu væru vinsælli hjá henni því þá gæti hún skoðað nýjasta vöruúrvalið á netinu áður en hún gerði sér ferð í búðina sjálfa.

Hér má sjá hugmyndir við Hafnargötu 2, í kringum Fishershús.

Svona gæti umhverfið við Duus og smábátahöfn litið út þegar stór bygging, stórbygging fyrrverandi skipasmíðastöðvar verður farin.



Guðlaugur og Gunnar vilja sjá Hafnargötu sem miðjupunkt bæjarins.

Viðtal við Guðlaug og Gunnar: Marta Eiríksdóttir.

Viðtal við Guðlaug í Sjónvarpi VF: Páll Ketilsson.