Mánudagur 28. september 2015 kl. 09:21

Hvað er að vera Geopark?

- Sjónvarp Víkurfrétta skoðaði Reykjanes Geopark

Reykjanes Geopark vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á einstakri jarðsögu, fræða og annast landið. Hugtakið Geopark er skilgreint af alþjóðlegum samtökum Geoparka sem nefnast Global Geoparks Network og starfa þau undir verndarvæng UNESCO. Um 100 geoparkar eru aðilar að samtökunum í dag, þ.e. svæði sem innihalda merkilegar jarðminjar og koma þeim á framfæri.

Reykjanes Geopark fékk formlega vottun sem geopark á þrettándu haustráðstefnu European Geoparks Network í Rokua Geopark í Finnlandi í september 2015. Reykjanes Geopark er annað svæðið á Íslandi til að hljóta þessa vottun en Katla Geopark hlaut hana árið 2011. Reykjanes Geopark er jafnframt 66. svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun.

Reykjanes Geopark er sjálfseignarstofnun frá fimm sveitarfélögum á Suðurnesjum og sex hagsmunaðilum sem eru aðilar að stofnuninni. Sveitarfélögin fimm eru Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar. Ásamt sveitarfélögunum eru Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs auk HS Orku aðilar að Reykjanes Geopark.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, er stjórnarformaður Reykjanes Geopark. Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Róbert um þetta áhugaverða samstarfsverkefni.

Reykjanes Geopark