Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. febrúar 2023 kl. 12:33

Humarsúpa Bryggjunnar á meðal tuttugu bestu rétta í heimi

„Það liggur við að fiskurinn komi beint upp úr dallinum upp í eldhús til okkar og þetta finnst ferðamanninum mjög spennandi,“ segir Hilmar Steinar Sigurðsson, einn eigenda veitingastaðarins Bryggjunnar í Grindavík.

Veitingastaðurinn Bryggjan í Grindavík hefur verið starfræktur síðan 2009 þegar fyrrum eigendur, bræðurnir Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir, opnuðu staðinn á neðstu hæðinni í sama húsi og þeir voru með netagerð. Aðalrétturinn var humarsúpa og urðu vinsældir staðarins slíkar að fjórmenningar sem voru í leit að nýju viðskiptatækifæri, keyptu staðinn árið 2018 og stækkuðu.

Hilmar er einn eigenda og fór fyrst yfir sína sögu og hvernig kom til að hann er einn eigenda Bryggjunnar í dag. „Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík, fór í MH og svo í viðskiptafræði og er líka með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Ég vann lengi hjá Stöð tvö, bæði í markaðs- og fjármálum og vann svo í bankageiranum í nokkur ár, n.t. í Íslandsbanka. Á þessum tíma var búinn að myndast skemmtilegur félagsskapur okkar fjögurra sem eigum Bryggjuna, Gestur Ólafur Auðunsson, reyndur byggingarverktaki, Axel Ómarsson, ég og Bjarne Bergman sem er frá Svíþjóð. Þessi sami eigendahópur hafði átt saman fasteignafélag í Berlín í Þýskalandi til margra ára. Síðan vorum við að leita að viðskiptatækifærum í ferðaþjónustunni á Íslandi árið 2017, sem var þá búinn að vera í miklum blóma og við komum auga á þennan frábæra stað, Bryggjuna. Við höfðum mikla trú á svæðinu, Reykjanesið, Bláa lónið, nálægðin við flugvöllinn og ekki síst staðsetningin við sjálfa bryggjuna. Við hugsuðum þetta til lengri tíma, höfðum trú á að ferðamannaiðnaðurinn ætti eftir að aukast úti á landi. Það var líka mjög spennandi að sjá hvað bræðurnir voru búnir að gera flotta hluti á neðstu hæðinni en umsagnir aðila á google og tripadvisor voru allar á sömu lundina, að um einstakan stað væri að ræða. Að sjá fræga Hollywoodleikkonu eins og Sigourney Weaver dásama staðinn skemmdi ekki heldur fyrir. Þegar við fórum að velta þessu fyrir okkur árið 2017 þá var hafin gerð heimildarmyndar um staðinn, mynd sem fékk svo nafnið Lobster soup. Sú mynd hefur nánast farið sigurför um heiminn og bara aukið hróður Bryggjunnar og Grindavíkur auðvitað í leiðinni.“

Netagerð að hluta til breytt í veitingastað

Alli og Krilli eins og þeir eru betur þekktir í Grindavík, voru farnir að spá í að stækka veitingastaðinn vegna ásóknar. Hilmar og félagar tóku við þeim bolta. „Bræðurnir voru sífellt að lenda í því að þurfa vísa gestum frá vegna plássleysis og voru farnir að spá í að breyta hluta salarins á efstu hæðinni sem hafði hýst netagerð, í veitingastað. Þetta smell passaði við okkar áform og úr varð að við keyptum netagerðahúsið og  Bryggjuna af þeim. Við fórum í miklar framkvæmdir í salnum, skiptum nánast um allt og upprunalega stóð til að breyta öllum salnum í veitingastað en fljótlega í ferlinu kom upp þessi hugmynd hjá okkur og bræðrunum, að hafa hluta salarins áfram sem netagerð. Það hefur komið virkilega vel út og vekur mikla athygli gesta, að sjá netagerðarmennina laga trollin. Stundum fá ferðamennirnir að kíkja inn í netagerðina og ræða málin við starfsmennina,“ segir Hilmar.

Ljós í myrkrinu

Fjórmenningarnir fengu afhent snemma árs 2018 og framkvæmdir hófust strax og reksturinn gekk vel til að byrja með. „Við opnuðum salinn uppi um Sjómannahelgina 2019 og það ár gekk mjög vel. Bókunartölur fyrir næsta ár fóru algerlega fram úr okkar björtustu vonum en svo mætti vágestur sem kallaði sig COVID og gerði okkur lífið heldur betur leitt. Rekstrargrundvöllurinn hrundi auðvitað og ég get ekki hrósað íslenskum stjórnvöldum nægjanlega fyrir þau úrræði sem boðið var upp á, ef ekki hefði komið til þeirra þá hefðum við varla lifað þetta af. Þetta var mjög erfiður tími en svo fór jörð hér í Grindavík að skjálfa og upp frá því hófst eldgos og segja má í orðsins fyllstu merkingu að það hafi verið ljós í myrkrinu. Bærinn fylltist af túristum svo traffíkin hjá okkur jókst mjög mikið. COVID kom svo auðvitað aftur en þetta skipti okkur miklu máli. Jörð byrjaði svo aftur að skjálfa í fyrra og aftur kom eldgos og þetta gerði ekkert annað en styrkja Reykjanesið sem vinsælan áfangastað ferðamanna. Það er bara gullni hringurinn sem er vinsælli dagsferð heldur en ferð á Reykjanesið. Það eina sem vantar hér í Grindavík er meira gistirými fyrir ferðamanninn, hann kemur hingað að morgni og er fram eftir degi en er svo farinn annað þar sem hann gistir. Þess vegna er ekki grundvöllur fyrir að hafa opið á kvöldin, sérstaklega ekki yfir vetrartímann svo eins og sakir standa þá munum við halda áfram að  hafa opið frá kl. 11.00 til 19.00.”

Flottur tónleika- og ballstaður

Þegar húsið var endurbætt þá var gert ráð fyrir möguleika á tónleika- og ballhaldi og er hljómburðurinn í húsinu fyrsta flokks. Er þetta eitthvað sem Bryggjan ætlar að gera meira af í framtíðinni? „Við viljum klárlega gera meira af því að bjóða upp á viðburði, aðstaðan hér er fyrsta flokks. Við erum að læra hvað virkar og hvað ekki en hér hafa verið haldnir frábærir tónleikar, böll, brúðkaup og fleira, möguleikarnir eru óþrjótandi má segja en við viljum velja af gaumgæfni hvað við gerum. Loksins erum við komnir með lyftu svo okkur er ekkert að vanbúnaði. Við erum opnir fyrir nýjum hugmyndum og ég hvet alla til að hika ekki við að bera undir okkar þær pælingar sem eru í gangi. Það er ýmislegt í pípunum á næstunni en næsta stóra verkefni er sjálf Sjómannahelgin, enginn heldur hana betur en Grindavík. Bærinn fyllist og þetta er alltaf okkar stærsta helgi tekjulega séð og munum við kappkosta að bjóða upp á spennandi dagskrá alla helgina. Munum vonandi opna með mikilli söngskemmtun strax á fimmtudagskvöldinu, verðum vonandi með stórt ball á föstudagskvöldinu og yfir höfuð, með mikla stemningu þessa helgi. Þetta verður auðvitað allt saman betur auglýst þegar nær dregur,“ segir Hilmar.

Reykjanesið að styrkjast sem ferðamannastaður

Hvernig sér Hilmar Bryggjuna þróast á næstu árum? „Allt Reykjanesið er að styrkjast sem ferðamannastaður og ekki síst Grindavík. Við sjáum fyrir okkur mikla aukningu á næstunni en segja má að Grindavík sé hálfgerð matarkista og nálægð okkar við bryggjuna býr til ofboðslega skemmtilega og spennandi stemningu fyrir ferðamanninn. Hann getur verið hér úti á svölunum, horft yfir bryggjuna og á bátana vera landa. Það liggur við að fiskurinn komi beint upp úr dallinum upp í eldhús til okkar og þetta finnst ferðamanninum mjög spennandi. Það eru fleiri frábærir veitingastaðir hér í Grindavík, mikil matarmenning. Nálægðin við hafið og bryggjuna gerir staðinn spennandi fyrir ferðamanninn svo Grindavík hefur allt til brunns að bera að vera mjög vinsæll ferðamannastaður. Auðvitað væri gott ef það væru fleiri hótel hér en það kemur ef eftirspurnin verður til, það er ég sannfærður um. Við erum mjög þakklátir Grindvíkingum fyrir móttökurnar og hlökkum til samstarfsins á komandi árum, við lítum framtíðina björtum augum,“ sagði Hilmar að lokum.