Hugmyndir um nýja flugbraut á Keflavíkurflugvelli
Hugmyndir um stækkun Keflavíkurflugvallar voru kynntar á opnum fundi í Leifsstöð í gær. Fundurinn var hluti af kynningarátaki vinnuhóps á vegum Isavia sem hefur unnið að þarfagreiningu fyrir flugvöllinn, en formleg drög að aðalskipulagi verða ekki lögð fram fyrr en í fyrsta lagi í október á þessu ári. Almenningi og sérhagsmunaaðilum gefst því kostur á að kynna sér áherslur vinnuhóps um aðalskipulag Keflavíkurflugvallar og vekja umræðu um tillögurnar áður en þær verða sendar áfram til stjórnar Isavia. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður H. Ólafsson, skipulagsfulltrúi Isavia, leggur áherslu á að núna sé bara verið að kynna þær hugmyndir sem verið sé að vinna með og að engar ákvarðanir um skipulag flugvallarins hafi verið teknar. Endanleg tillaga að aðalskipulagi verður ekki lögð fram fyrr en á næsta ári og þá muni aftur gefast tækifæri til þess að koma á framfæri athugasemdum við þær tillögur sem þar verða lagðar fram.
Vinnuhópurinn leggur m.a. til að nýrri flugbraut frá norðri til suðurs verði bætt við vestan megin við núverandi flugbrautir, og að braut frá norðvestur til suðausturs, sem nú er þegar gert ráð fyrir í aðalskipulagi, verði hliðruð til. Með því væri hægt að tvöfalda afkastagetu flugvallarins, en árið 2011 fóru 63% allra flughreyfinga á Leifsstöð, þ.e. lendingar og flugtök, um núverandi norður-suður braut.
Fjöldi farþega um Leifsstöð er nú um 2,3 milljónir farþega á ári, en verður líklega á bilinu 3 til 6 milljónir á ári árið 2030. Vinnuhópurinn leggur til að þeim vexti verði mætt með því að stækka flugstöðina til austurs, en Sigurður bendir á að það séu takmarkaðir stækkunarmöguleikar í þá átt vegna núverandi legu flugbrautarinnar og því sé einnig gert ráð fyrir að flugstöðin geti stækkað í vesturátt.
Hópurinn leggur einnig til að hringtenging verði við flugvöllinn. Sigurður segir það ekki ásættanlegt að einungis sé ein leið að flugstöðinni, þar sem ekki þurfi mikið að bjáta á til að loka aðgengi að henni alveg.
Hægt er að kynna sér tillögur vinnuhópsins á heimasíðu Isavia, og er hægt að koma athugasemdum við tillögur nefndarinnar til skila fram til 5. júlí nk. segir í Morgunblaðinu í dag.