Hrekkjalómafélagið verður aldrei endurvakið
Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson sendi á dögunum frá sér bók um Hrekkjalómafélagið í Vestmannaeyjum. Hann bjó í Eyjum og var einn meðlima félagsins. Ásmundur flutti til Reykjanesbæjar fyrir 12 árum og tók við stöðu verkefnisstjóra Ljósanætur. Hann segir Suðurnesin ekki njóta mikils skilnings á Alþingi.
Ásmundur Friðriksson þingmaður sendir fyrir jólin frá sér bókina Prakkarastrik og púðurkerlingar. Bókin segir sögu Hrekkjalómafélagsins í Vestmanneyjum en Ásmundur er frá Eyjum og var einn meðlima félagsins. Hann segir bókina innihalda margar skemmtilegar sögur af prakkarastrikum félagsins. „Það er þó umgjörðin og andrúmsloftið sem skemmta mér mest. Sögurnar af Didda í Svanhól, Jóni Bergs og Kút einhenta. Þeir eru sérstakir menn og það er mikilvægt að þessar sögur gleymist ekki.“ Hann segir Hrekkjalómafélagið hafa orðið til í því andrúmslofti sem ríkti eftir fjögurra ára Surtseyjargos. Svo hafi Eyjagosið komið stuttu seinna. „Fólkið var að byggja upp húsin sín með miklum látum. Það var traðkað á tilfinningunum eftir gosið og þá varð til jarðvegur fyrir sprellikarlafélag. Við vorum ungir menn sem vorum að stjórna fyrirtækjum í Eyjum. Öllum fannst það fyndið þegar við fórum að láta eins og fífl. Við komumst upp með það í 20 ár og þá var hrekkjalómakvótinn búinn.“ Síðan hefur fólk beðið hann um að stofna aftur hrekkjalómafélag en hann segir það ekki verða endurtekið.
Sérstakt líf í sjávarplássum
Í formála bókarinnar segir að hún fjalli meðal annars um það úr hvaða jarðvegi Eyjamenn hafa sprottið. „Það var sérstakt líf í sjávarplássum þar sem menn voru að stokka línuna og gera færin klár. Þar fannst þeim gaman að fá sér og gerðu það ekki eftir klukku heldur dagatali. Þeir duttu í það nokkra daga í röð og í þessu umhverfi skapaðist sérstök stemmning. Frumkraftarnir okkar koma úr þessu umhverfi.“ Ásmundur segir að fyrir fólk á hans aldri hafi starfshættir í fiski breyst mikið. „Ég hætti að vinna í fiski fyrir 12 árum síðan. Ef ég ætti að fara að vinna í Nesfiski eða hjá Vísi þá hugsa ég að ég þyrfti að fara í Tækniskólann fyrst. Þetta er orðið svo frábært umhverfi og þess vegna þurfum við að halda svo vel utan um þetta. Það var svo mikil brekka að gera þetta allt á höndum. Við gerðum það sem peyjar að kinna og fiskurinn var handflakaður en í dag það gert í sáralitlum mæli.“
Bæjarstjórastaðan tækifæri lífsins
Ásmundur flutti til Reykjanesbæjar fyrir 12 árum og tók þá við starfi verkefnastjóra Ljósanætur hjá Reykjanesbæ. Tímabilið 2009 til 2012 var Ásmundur svo bæjarstjóri í Garði. Hann segir bæjarstjórastarfið hafa verið tækifæri lífs síns og skemmtilegasta vinna sem hann hafii unnið. „Þó ég segi sjálfur frá þá var ég góður bæjarstjóri. Auðvitað fannst það ekki öllum en það er eðlilegt. Ég naut mín sérstaklega enda er ég framtakssamur og fylgdi málum eftir og gerði fullt af hlutum sem kostuðu sveitarfélagið ekki mikla peninga og stundum enga. Mér fannst skemmtilegast að gera þessa hluti sem ég tók þátt í sjálfur. Við skipulögðum Ferska vinda sem byrja eftir nokkra daga og eru með metnaðarfyllri menningarviðburðum sem samfélag á stærð við Garðinn heldur, 50 útlendingar verða hérna í mánuð að sinna list sinni. Ég hefði viljað vera bæjarstjóri áfram.“ Ásmundi líður vel á Suðurnesjum og finnst veðrið hér betra en í Vestmannaeyjum. „Hérna er gríðarlega gott fólk og vinnusamt sem hefur alist upp við svipað atlæti og ég; við sjóinn og mikla vinnu.“ Hann segir hlutverk sitt að skapa tækifæri til viðurværis fyrir fólk. „Hér eru ennþá lág laun og við þurfum að bæta það. Ímynd svæðisins er allt önnur en hún var en okkur vantar sjálfstraust, að horfa í spegilinn og segja að við séum flottastir.“
Segir þingmenn ekki ráða neinu
Árið 2013 tók Ásmundur sæti á þingi og segir þingmannsstarfið að mörgu leyti ólíkt starfi bæjarstjóra. „Sem bæjarstjóri kláraði ég fullt af hlutum fyrir hádegi. Núna er ég þriðja veturinn á þingi og er kominn með fjórar þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvörp, það gengur ekkert að koma þessu fram. Það tók mig langan tíma að sætta mig við það að vera alltaf að mæta í vinnuna en það gerðist ekkert. Auðvitað eru þingmenn að sinna mikilvægum störfum. Nefndarstörf eru mjög gefandi, fræðandi og skemmtileg en það veður ekkert undan okkur.“ Ásmundur kveðst nýlega hafa rætt við mann í þinginu um að hann hefði ekkert að gera þar. „Mér finnst ég ekkert hafa að gera í þinginu. Þingmenn ráða engu. Þeir bara koma í vinnuna og reyna að raða saman þessum kubbum og búa til eitthvað sem endar svo í fjárlagafrumvarpinu sem er aðalmálið fyrir hvern meirihluta. Þá verður maður að standa með því þó að manni líki ekki allt í því. Í þinginu þarf maður stundum að gera meira en manni líkar sjálfum.“
Reykjanesbær ólíkur Álftanesi
Stundum heyrast þær raddir að Suðurnesin eigi ekki nógu sterka þingmenn. Aðspurður um það segir Ásmundur að þegar hann var bæjarstjóri í Garðinum hafi hann haldið að það snérist um pólitík að ekki væru nægir fjármunir settir í verkefni á Suðurnesjum. „Ég upplifi það sama núna sem þingmaður að við eigum erfitt með það að fá hingað pening. Annars finnst mér að Suðurnesjamenn eigi bara að fíla þingmenn, alveg sama í hvaða flokki þeir eru. Við erum nokkuð mörg þingmennirnir héðan og erum vakandi og sofandi yfir hagsmunum okkar Suðurnesjamanna eins og fyrir landið allt og kjördæmið. Það er engum blöðum um það að fletta að mér finnst Suðurnesin ekki njóta mikils skilnings í þinginu.“ Ásmundur nefnir áframhaldandi uppbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. „Helguvíkin er búin að vera í mikilli óvissu. Þar vantar pening sem við höfum verið að berjast við að fá. Þeir eru ekki enn í hendi.“ Þá segir Ásmundur mikilvægt að hjálpa til við fjárhag Reykjanesbæjar. „Reykjanesbær er oft borinn saman við Álftanes sem var lítill hreppur í nágrenni við stærri sveitarfélög. Hérna á Suðurnesjum er Reykjanesbær stærsta sveitarfélagið. Við megum ekki við því að það hrikti meira í þeim stoðum. Við þurfum að treysta starfssemi bæjarins og fyrir mig skiptir pólitík í því máli ekki neinu. Við þurfum að bjarga þessu samfélagi svo við getum haldið áfram að horfa áhyggjulaus fram á veginn. Við eigum ekki að þurfa að borga hærri skatta hér en annars staðar á landinu. Við viljum búa í okkar bæjarfélagi sem er fallegt og býður upp á mikla möguleika. Við þurfum að geta búið hér eins og fólkið í Garðabæ.“ Tveir ráðherrar tilheyra Suðurkjördæmi og segir Ásmundur þá hafa lagt sitt af mörkum hvað við kemur Suðurnesjum. „Ég er alveg hreinskilinn að segja það að mér finnst okkur ekki hafa tekist það sem ég hélt að okkur myndi takast, sérstaklega hvað snýr að Helguvíkinni og stuðningi við Reykjanesbæ.“