Föstudagur 26. maí 2017 kl. 10:03

Hinseginleikinn og afrek í körfuboltanum

- í þætti vikunnar í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta

Suðurnesjamagasín, fréttatengdur mannlífsþáttur frá á Suðurnesjum er á dagskrá Hringbrautar á fimmtudagskvöldum. Útsending þáttarins í gærkvöldi skolaðist eitthvað til þar sem skemmd var í útsendingarskrá þáttarins. Endursýningar á þættinum ættu að verða í lagi í dag og um helgina.
 
Í þætti vikunnar eru málefnin tvö og þá sjáum við einnig nýtt tónlistarmyndband frá Suðurnesjum.
 
Við hittum Ósk Matthildi Arnarsdóttur og Sæmund Má Sæmundsson og spjölluðum við þau um það hvernig það væri að koma úr út skápnum á Suðurnesjum. Þau segja fólk vera orðið fróðara um þessi málefni í dag og að mikilvægt sé að fólk viti að samkynhneigð sé ekkert hinsegin.
 
Við tökum einnig hús á körfuknattleiksþjálfaranum Sigurði Ingimundarsyni. Hann er sigurvegari. Að baki liggja 39 titlar í körfubolta karla og kvenna með Keflavík. Félagið hefur mikla þýðingu fyrir þennan beinskeytta þjálfara sem nú hefur verið í langþráðu fríi frá körfuboltanum. Það kom þó til vegna veikinda sem Sigurður segir ekki hrjá hann lengur. Hann gerir ekki ráð fyrir því að ferlinum sé lokið og stefnir á að snúa ferskur á hliðarlínuna innan skamms enda segist hann eiga ýmsu ólokið. Eyþór Sæmundsson hitti Sigurð þegar úrslitakeppnin í körfuknattleik stóð sem hæst nú í vor.