Hérna vil ég helst vera
-Hörður Axel Vilhjálmsson segist elska Keflavík
„Auðvitað hefði maður viljað meira en við getum samt verið stoltir með þessa frammistöðu í vetur,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, lykilleikmaður Keflvíkinga í Domino’s deildinni í körfubolta en liðið tapaði gegn KR í fjórða undanúrslitaleiknum í Keflavik með tveggja stiga mun.
Dómarar fóru yfir sjónvarpsupptöku eftir síðasta skot Harðar í leiknum sem Acox varði en nokkur tími leið þegar boltinn var á leið út af vellinum og vildu þeir vera vissir um að leiktíminn hefði runnið út. Svo reyndist vera en við spurðum Hörð út í það því dómarar voru í dágóða stund að skoða atvikið. VF spurði Hörð líka hvort hann yrði áfram hjá Keflavík.