„Hentar ótrúlega vel að taka upp hér á Suðurnesjum“
- Frumsýnd 15. apríl í Bíó Paradís
Daði Einarsson er keflvískur kvikmyndargerðarmaður sem mun frumsýna stuttmyndina Hittarar & Krittarar í Bíó Paradís þann 15. apríl nk. kl. 20:00.
„Myndin er óður til nördisma og hlutverkaspila í svipuðum anda og Astrópía sem kom út fyrir 10 árum síðan. Frá nördum til nörda,“ segir Daði um myndina. Sýnishorn úr myndinni er í spilaranum hér að ofan.
„Myndin sjálf er spennandi og tilfinningarík mynd um ungt fólk og vandamál innan vinahópa. Hún er tekin upp að mestu leiti á Suðurnesjum og Reykjanesskaga, sérstaklega heima hjá mér í Keflavík. Það hentar ótrúlega vel að taka upp hér á Suðurnesjum og Reykjanesinu þar sem náttúrufegurðin er endalaus, sérstaklega fyrir fantasíumynd“.
Aðalleikari myndarinnar er Guðsteinn Fannar Ellertsson, sem er einnig frá Keflavík. „Við höfum verið að gera myndir saman á Suðurnesjunum síðan við vorum í grunnskóla,“ segir Daði.
Myndin heitir Hittarar & Krittarar og er stuttmynd um hóp af ungum krökkum sem koma saman og spila Dungeons & Dragons. Í leiknum berjast þau við illa galdramenn, uppvakninga og útsmogna óþokka, en við spilaborðið ríkja óumflýanleg, persónuleg vandamál.
Að sýningunni lokinni mun Júlí Heiðar Halldórsson halda stutt „Spurt og svarað“ við Daða Einarsson, leikstjóra myndarinnar og Jönu Arnarsdóttur framleiðanda myndarinnar ásamt leikurum myndarinnar: Guðsteini, Óskari, Þórhildi og Sveini Lárusi.
Stilla úr stuttmyndinni Hittarar & Krittarar.