Laugardagur 28. október 2017 kl. 05:00

„Heimssögulegur viðburður“ í Hljómahöll

— Hátíðartónleikar og Lútherskantata í tilefni 500 ára siðbótarafmælis

Í tilefni 500 ára siðbótarafmælisins árið 2017 verður „heimssögulegur viðburður” í Hljómahöll sunnudaginn 29. Október næstkomandi kl. 16 en um er að ræða frumflutning á Lútherskantötu.
 
Höfundurinn er tónskáld á Suðurnesjum, Eiríkur Árni Sigtryggsson, en hugmyndin varð að sögn Arnórs B. Vilbergssonar, organista Keflavíkurkirkju, til eftir flutning Keflavíkurkantötunnar árið 2014.
 
„Eiríkur sat í kaffi hjá mér og þá minntist ég á að gaman væri að flytja Lútherskantötu á Siðbótarárinu. Hann stökk á hugmyndina og svo vildi svo vel til að Prófastdæmi Kjalarness sýndi hugmyndinni mikinn áhuga frá upphafi. Nú er svo komið að því að frumflutningurinn er innan seilingar.“
 
Að sögn Arnórs nálgaðist Lúther tónlist í kirkjunni öðruvísi en menn gerðu áður. „Hann fór til að mynda á krárnar og hlustaði á lögin sem menn sungu þar og skrifaði svo nýja og trúarlega texta við lögin sem sungin voru í helgihaldinu daginn eftir.“ 
 
Stífar æfingar hafa staðið yfir að undanförnu og að mörgu að huga þegar svo stór hópur kemur saman en alls koma um 200 manns að tónleikunum. Fjölmennastir eru kórar af Suðurnesjum, Hafnarfirði og Garðabæ en þá tekur jafnframt þátt Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og einsöngvararnir Ragnheiður Gröndal, Bylgja Dís og Gissur Páll Gissurarson en stjórnandi er Oliver J. Kentish.
 
Stefán Már Gunnlaugsson héraðsprestur kemur að verkefninu í gegnum Kjalarnesprófastdæmi og segir slíkt samstarf einkar jákvætt.
 
„Siðbótin fyrir 500 árum voru mikil tímamót í kirkjunni og lífi þjóðarinnar, því fáir atburðir hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska sögu, kirkju, menningu, tónlist, tungumálið o.fl. Þessum tímamótum fagna kirkjurnar á Suðurnesjum, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ með sameiginlegum stórtónleikum með fjölbreyttri efniskrá, þar sem Lútherskantata verður frumflutt, sem er heimsögulegur viðburður að sögn höfundar.
 
Fyrri tónleikarnir verða laugardaginn 28. október, kl. 16 í Víðistaðakirkju og hinir síðari sunnudaginn 29. október kl. 16 í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
 
Undir þetta tekur Eiríkur Árni sem segir kantötuna þá fyrstu sinnar tegundar.  
 
„Verkið samanstendur af kórþáttum með samleik hljómsveitar og svo stuttum hljómsveitarþáttum á milli. Stíllinn er blanda af hefðbundnum kórsöng í sálmastíl, nútímalegum ómstreitum, dægurlagakenndum hljómum og rómantískum laglínum. Tónverkið er byggt á „95 tesum“ Lúthers, sem voru birtar 31. október árið 1517 og marka upphaf siðbótarinnar.“
 
Miðaverð á tónleikana eru 2.000.- kr. (frítt fyrir 18 ára og yngri) og er hægt að kaupa miða á tix.is eða við innganginn.