Heimildamynd um eina heimilislausa mann Reykjanesbæjar gefin út
Elfar Þór Guðbjartsson gaf á dögunum út heimildamynd um Sigurbjörn Blöndal Sigurbjörnsson, betur þekktur sem Diddi, sem var eini heimilislausi maður Reykjanesbæjar. Heimildamyndin er verkefni Elfars í kvikmyndaskólanum þar sem hann stundar nám.
„Diddi varð fyrir valinu því ég hef þekkt hann í mörg ár út af fyrra líferni, sem ég hef sagt skilið við í dag en liggur mér rosalega á hjarta. Diddi hefur alltaf verið svo hress og almennilegur við mig í gegnum árin að mig langaði að sýna fólki hver hann væri. Ég hef kynnst mörgum karakterum í gegnum árin sem fólk hunsar eða jafnvel óttast og mig langaði að gefa þeim rödd og sýna mánnúðlega hlið af þessu lífierni. Mig þykir vænt um þennan kall,“ segir Elfar í samtali við Víkurfréttir, en hann stefnir að því að gera mynd í fullri lengd um Didda.
Sigurbjörn Blöndal Sigurbjörnsson, betur þekktur sem Diddi.