Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 16. október 2022 kl. 08:00

Hefur bætt heilsu Suðurnesjamanna

Sporthúsið í Reykjanesbæ fagnar tíu ára afmæli

Sporthúsið í Reykjanesbæ hefur verið starfandi í tíu ár og var haldið upp afmæli líkamsræktarstöðvarinnar nú í byrjun október. Áfanganum var fagnað með opnu húsi vikuna 3.–9. október og margt í boði fyrir viðskiptavini og gesti. „Við teljum okkur hafa lagt mikið af mörkum í að bæta heilsu Suðurnesjabúa og það hefur gengið afskaplega vel,“ segir Ari Elíasson, eigandi Sporthússins, þegar hann horfir til baka á þau tíu ár sem stöðin hefur verið starfrækt.

Ari segir mikið hafa breyst á þessum tíu árum, meðal annars útlit, tæki og aðbúnaður. „Við byrjuðum í stóru húsi en samt smáu miðað við hvernig það lítur út í dag. Við byrjuðum með heilsurækt í rúmum 2.000 fermetrum árið 2012. Við erum núna að fullnýta alla bygginguna sem eru rúmir 4.000 fermetrar. Þann 1. október síðastliðinn opnuðum við 900 fermetra stækkun á nýjum hóptímasölum og með því fá allir okkar viðskiptavinir betri þjónustu og betra æfingasvæði. Það má segja að við séum að komast á tindinn þar sem við viljum vera.“ 

Hvað þýða þessar breytingar fyrir starfsemina?

„Breytingin er kannski helst að við erum með mikinn fjölda af ungmennum í unglingaþjálfun og unglinga Crossfit og við erum núna komin með hliðarsal sem er tengdur við Crossfit-salinn sem við getum nýtt fyrir unglingatímana á sama tíma og foreldrarnir fara í aðra tíma eða í tækjasalinn. Með þessari stækkun getur fjölskyldan verið öll saman í þessu.“

Nýr og glæsilegur Crossfit salur í Sporthúsinu

Hvaða áhrif hafði Covid á rekstur líkamsræktarstöðvarinnar?

„Covid reif hressilega í allar landfestar hjá okkur. Við vorum lokuð vegna faraldursins í ríflega sex mánuði. Núna haustið 2022 er allt að komast í eðlilegt horf hjá okkur og starfsemin farin að verða eðlileg, eða eins og þetta var áður en Covid skall á. Haustið hefur verið gott, veðurfarslega séð, og fólk hefur verið að njóta þess en við finnum það núna þegar við erum komin inn í október að allt að fara á fullt skrið. Covid var náttúrlega alveg fram í febrúar þannig við fengum ekki þessa nýárstraffík sem kemur alltaf inn í þennan bransa í janúar hverju sinni. Við nýttum tímann þegar stöðin var lokuð í að ráðast í miklar breytingar. Við máluðum, settum upp nýja veggi, tókum niður veggi og í raun bættum aðstöðuna til að vera í stakk búin til að fara í fulla þjónustu aftur. Með þessum breytingum erum við orðin líkamsræktarstöð á heimsmælikvarða hvað varðar aðstöðu og fjölbreytileika, vil ég segja. Eins og slagorð okkar Sporthússins segir: „Heilsurækt fyrir alla“, við erum með krakka hérna alveg frá tíu ára og sá elsti er rétt tæplega níræður þannig við erum með ansi fjölbreytta flóru af viðskiptavinum.“

Hvers vegna er fjölbreytileikinn ykkur mikilvægur?

„Það er mikilvægt að við séum með fjölbreytileika í tímum og að þjálfarar okkar séu fjölbreytilegir. Við erum ekki öll steypt í sama mótið og veljum okkur öll mismunandi hreyfingu svo ég tel að það sé alveg gríðarlega stór þáttur,“ segir Eva Lind Ómarsdóttir, unnusta Ara, en hún er einnig eigandi Sporthússins.

 

Hvað er í boði af tímum?

„Það er gríðarlega mikið framboð af tímum, bæði námskeið og tímar eins og Crossfit, Þitt form, Stepfit og Súperform en það eru um 35–40 tímar sem hægt er að velja úr í hverri viku,“ segir Ari og Eva bætir við: „Það er nóg af hóptímum og námskeiðum fyrir fullorðna og ungmenni í sérhæfðum sölum, bæði heitum og ekki heitum. Svo erum við einnig með spa sem er aðgengilegt viðskiptavinum alla daga.“

Hvað er framundan hjá Sporthúsinu? Er framkvæmdum lokið?

„Við gerum ráð fyrir að framkvæmdum innanhúss verði að mestu leyti lokið um áramót en við höfum einbeitt okkur að því að klára allt sem snýr að viðskiptavininum innan þess tímaramma. Strax næsta vor munum við ráðast í töluverðar breytingar á utanverðu húsinu. Við ætlum að taka í gegn heildarútlit hússins, húsið verður málað og lóðin tekin í gegn en við erum nú þegar byrjuð að útbúa um það bil 1.000 fermetra útiæfinga aðstöðu sem tengist ákveðnum sölum hérna. Svo munum við koma til með að setja stóra og mikla glugga á bygginguna og færa þannig lífið úr stöðinni út á götu og birtuna inn í hús þannig að ásýnd hússins verður hin glæsilegasta,“ segir Ari.