Laugardagur 4. mars 2017 kl. 06:00

„Hefði átt að vera löngu búið“

- Rætt við íbúa í Garði og Sandgerði um mögulega sameiningu sveitarfélaganna

Sveitarfélögin Garður og Sandgerði vinna nú saman að greiningu á kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Í síðustu viku voru haldnir íbúafundir um mögulega sameiningu. Gert er ráð fyrir að greiningunni verði lokið í maí og að í framhaldi af því verði tekin ákvörðun um það hvort íbúar muni kjósa um tillögu að sameiningu sveitarfélaganna. Ráðgjafafyrirtækið KPMG heldur utan um verkefnið.
Við hjá Víkurfréttum kíktum í Sandgerði og Garð í vikunni og ræddum við nokkra íbúa um það hvaða skoðun þeir hafa á mögulegri sameiningu.

Þorbjörg Bergsdóttir, íbúi í Garði, ólst upp í Sandgerði
„Ég vil sameiningu og hef trú á því að það verði hægt að sameina og að allt verði í himnalagi. Þá yrði hægt að hafa íþróttasvæði á milli bæjarfélaganna og allir geta hjólað þangað,“ segir Þorbjörg. Aðspurð um gallana segir hún að enginn þurfi að verða útundan, töluverð samvinna sé nú þegar á milli Sandgerðis og Garðs.

 

Andreas Árni Baldursson, íbúi í Sandgerði, starfar í Garði
„Ég hef lengi verið hlynntur sameiningu og lýst bara mjög vel á að verið sé að skoða það,“ segir Andreas. Hann segir helstu kostina við sameiningu að báknið minnki. Hann segir að þó eigi enn eftir að kynna fyrir íbúum hvað sameining feli í sér. Andreas starfar í Íþróttamiðstöðinni í Garði og kveðst heyra í kringum sig að fólk sé jákvæðara fyrir sameiningu nú en áður fyrr. „Fólk er farið að sjá ljósu punktana í þessu. Þjónustan gæti ef til vill lagast og hægt að leggja meira í hana.“

Brynleifur Heiðar Jónsson, íbúi í Garði
„Sumt er jákvætt við sameiningu en annað ekki. Ég myndi vilja sjá betur hvað sameining felur í sér,“ segir Brynleifur. Aðspurður um nafn á sameinað sveitarfélag hefur Brynleifur ekki spáð í því enn sem komið er. „Það væri gaman að hafa eitthvert frumlegt nafn og ekki Suðurnes, heldur eitthvað spennandi.“


Kristín Eyjólfsdóttir, íbúi í Garði
„Ég fór á kynningarfundinn hérna í Garðinum og leist vel á það sem þar kom fram. Fundurinn var ekki kynning heldur áttum við fundarmenn að vinna þetta saman. Þetta var góður fundur og gaman að fara á hann,“ segir Kristín. Af kostum við sameiningu nefnir hún fjölmennari íþróttafélög. „Ég vona að það takist að sameina starfið þeirra. Nú þegar er samstarf meðal yngri flokkanna sem er mjög gott og ég vona að hún haldi áfram. Við erum með sameiginlegan forstöðumann íþróttamannvirkja sem er búinn að gera mjög góða hluti,“ segir Kristín sem ekki er búin að ákveða hvort hún muni kjósa með sameiningu eða ekki, komi til kosningar.

Grétar Sigurbjörnsson, íbúi í Sandgerði
„Ég er hlynntur því að skoða sameiningu. Það eru örugglega margir fletir sem hægt væri að samnýta,“ segir Grétar sem starfar hjá Sandgerðishöfn. Þar eru sameiningarmálin rædd líkt og víðar. „Það eru skiptar skoðanir en ég heyri að menn eru á því að láta á þetta reyna.“ Aðspurður um mögulega ókosti við sameiningu þá segir Grétar að eflaust verði þeir einhverjir til að byrja með að kostirnir verði án efa fleiri.

Stefán Sigurðsson, íbúi í Sandgerði
„Mér líst mjög vel á sameiningu enda erum við farin að vinna töluvert saman. Þetta er mjög gott mál. Bæði bæjarfélögin eru lítil og veitir ekkert af því að sameinast. Það er óþarfi að vera með tvær bæjarskrifstofur. Við erum með höfnina hér í Sandgerði en þeir nota hana jafnvel meira en við svo af hverju ekki að sameinast? Það átti að vera löngu búið að gerast.“

Oddný Guðjónsdóttir, íbúi í Sandgerði
„Ég held að það sé framtíðin hjá litlum sveitarfélögum að sameinast. Þá verður yfirstjórnin ódýrari og reksturinn jafnvel betri svo það má skoða þetta,“ segir Oddný.


 

Júlíus Viggó, íbúi í Sandgerði
„Mér líst mjög vel á að skoða sameiningu Sandgerðis og Garðs og held að þá skapist sterkari grunnur til að byggja á fyrir bæði sveitarfélögin. Þá þurfum við ekki að sameinast Reykjanesbæ í framtíðinni. Margir tala um að það sé framtíðin en ég er ekki viss með það en mér líst hins vegar mjög vel á sameiningu Garðs og Sandgerðis.“