Hætt komnir í innsiglingunni til Grindavíkur
Áhöfnin á Farsæli GK 162 var hætt komin í innsiglingunni til Grindavíkur í gærkvöldi þegar brotsjóir riðu yfir fiskiskipið. Skipið fékk á sig þrjú stór brot og nokkur minni. Veiðarfæri fóru í sjóinn og þurfti skipstjórinn að draga þau á eftir sér til hafnar.
Fjórir menn eru í áhöfn Farsæls og voru þeir að undirbúa sig að fara í björgunarbúninga þegar Grétar Þorgeirsson skipstjóri kom bátnum í gegnum brotin og inn fyrir varnargarðana í innsiglingunni til Grindavíkur.
Í viðtali við dv.is nú áðan sagði Grétar að „aðstæðurnar voru alveg skelfilegar og þær verða ekki verri í innsiglingunni í Grindavík“. Grétar segist heppinn að veiðarfærin hafi ekki farið í skrúfuna þegar þau tók út í einu brotinu. Þá hefði skipið farið upp í grjótgarðana og björgun með þyrlu hefði verið eina leiðin. ann segir mikla mildi að ekki hafi drepist á vélum Farsæls.
Fjórir voru um borð í skipinu og segir Grétar við dv.is enga spurningu að menn hafi verið hætt komnir. „Þetta var það tæpasta sem ég hef lent í og er ég búinn að stranda þarna í innsiglingunni. Ég hef aldrei séð það svona svart.“
Ragnar Rúnar Þorgeirsson, bróðir Grétars skipstjóra, tók upp meðfylgjandi myndband við komu Farsæls GK til hafnar í Grindavík. Hann veitti Víkurfréttum góðfúslegt leyfi til að birta myndbandið en það má nálgast í lengri útgáfu á Facebook-síðu Ragnars.