Grindvískt bítl, atvinnulíf og menning
- í þætti vikunnar hjá Sjónvarpi Víkurfrétta
45. þáttur Sjónvarps Víkurfrétta verður á dagskrá ÍNN í kvöld kl. 21:30. Í þættinum verður leitað fanga í atvinnulífi, mannlífi og menningu, auk fréttapakka frá Suðurnesjum.
Við hefjum leikinn á fundi í Reykjanesbæ þar sem Skúli Mogensen eigandi Wow flugfélagsins fór mikinn í því að lofa sinn gamla heimabæ, Keflavík og nágrenni, en hann telur að Suðurnesin eigi hvað mesta möguleika allra landssvæða á næstu árum.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir er einn af þeim Suðurnesjamönnum sem við finnum í jólabókaflóðinu í ár. Bókin hennar kom þó út fyrr á árinu og heitir tapað - fundið. Hún las úr henni í Bókasafni Reykjanesbæjar nýlega og við spjölluðum við hana þar.
Grindvíkingar eru engum líkir og sumir þeirra fjörugri en aðrir. Synir Dagbjarts Einarssonar, fyrrverandi útgerðarmanns og bónda eru í þeim hópi. Við hittum þrjá Dagbjartssyni á fjörugum föstudegi þar sem þeir stóðu á sviði og sungu bítlalög í húsnæði Þorbjarnar. Yfir þúsund manns komu líka til að fá fisk og franskar en Þorbjarnarmenn senda þúsundir tonna af fiski til Bretlands á hverju ári.
Þáttinn má sjá hér að neðan í háskerpu.