„Gleðin gefur okkur svo skemmtilegar minningar“
- segir Gunnheiður Kjartansdóttir sem fagnar tíu ára samstarfsafmæli með Freydísi Kneif og Írisi Dröfn vinkonum sínum
Fyrir áratug síðan hófu þær Gunnheiður Kjartansdóttir, Freydís Kneif Kolbeinsdóttir og Íris Dröfn Halldórsdóttir samstarf í uppsetningu söngleikja og leiksýninga í Reykjanesbæ. Verkefnin voru aðallega sett upp með nemendum Myllubakkaskóla en einnig í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og nemendur úr flestum skólum bæjarins. Þær stöllur vildu halda uppskeruhátíð þessa tíu ára samstarfs og hafa því sett upp tónleika í Krikjulundi við Keflavíkurkirkju undir heitinu „Krakkarnir okkar“ þar sem brot af því besta verður flutt í nýjum búningi. Flytjendur eru „krakkar á aldrinum 6-28 ára sem hafa flest unnið með þeim áður og jafnvel oft.
„Við höfum verið að velta því fyrir okkur lengi hvernig við vildum halda upp á þetta 10 ára samstarfsafmæli okkar. Við vildum helst halda áfram að vinna með þessum krökkum og ákváðum eitt kvöldið að senda skilaboð á Facebook til þessara stóru krakka sem hafa unnið með okkur í gegnum árin. Við vorum alveg undir það búnar að fá ekki mikil viðbrögð. Þau voru hins vegar 20 sem svöruðu okkur og vildu taka þátt í verkefninu. Þá tókum við ákvörðun um að halda tónleika og taka þessi lög sem hafa verið hjá okkur í ýmsum verkefnum og söngleikjum sem við höfum sett upp í gegnum þessi tíu ár,“ segir Gunnheiður Kjartansdóttir í samtali við Víkurfréttir á æfingu nú í vikunni.
- Þetta eru aðallega krakkar sem hafa verið að vinna með ykkur í Myllubakkaskóla?
„Jú, þetta eru krakkar þaðan en einnig sem hafa komið úr öðrum skólum og unnið með í uppsetningu á jólaleikritinu „Hvað er í pakkanum?“ og í söngleik sem við settum upp með Fjölbrautaskóla Suðurnesja og heitir „Sénsinn“ þannig að þessir krakkar eru að koma úr flestum skólum bæjarins“.
– Hvaða baktería er þetta í ykkur stöllum?
„Þetta er rosaleg vinna og á tímapunkti eins og í dag þá spyr maður sig af hverju maður sé að standa í þessu þegar stressið er komið og maður er hræddur við að miðasalan sé ekki að ganga. Þetta er hins vegar svo rosalega mikil gleði þegar kemur að frumsýningu og allir orðnir yfirspenntir. Þetta gefur okkur svo skemmtilegar minningar“.
- Verkið sem sýnt verður um helgina, er það brot af því besta frá síðasta áratug?
„Já, það má eiginlega segja það. Við erum einnig með nokkur lög sem við höfum ekki áður haft inni í sýningum. Við erum þarna með nokkur skemmtilegustu lögin sem við vorum með í hverjum söngleik en í heildina eru þetta sautján lög sem verða á tónleiknum“.
Gunnheiður segir að það hafi verið ótrúlega auðvelt að fá krakkana til samstarfs því það finnist öllum þetta svo gaman. Þau hafa líka alltaf fengið svo góðar móttökur hjá bæjarbúum sem hafa mætt vel á allar sýningar og það lifir í minningunni.
– Hvar má njóta sýningarinnar?
„Tónleikarnir verða í Kirkjulundi og verða frumsýndir á föstudaginn kl. 20 og svo verða aukasýningar á laugardaginn kl. 16 og 20. Svo má nálgast miða með því að hringja í mig í síma 695-3297 og miðaverðið er 2000kr. Ég mæli með því að miðar séu pantaðir. Svo má sækja miðana til mín í Tryggingamiðstöðina í Keflavík.