Glæsileg Suðurnesjatíska - video
Stærsta tískusýning sem haldin hefur verið á Suðurnesjum fór fram í gær í kvikmyndaverinu Atlantic Studios á Ásbrú í Reykjanesbæ. Sýningin var hluti af svokölluðu Heklugosi, viðburði sem Atvinnuþróunarfélagið Heklan skipulagði í samstarfi við hönnuði sem starfa í Frumkvöðlasetrinu Eldey og fleiri aðila.
Að tískusýningunni komu fjöldi fatahönnuða auk hárgreiðslu- og förðunarfólks frá Suðurnesjum. Tugir fyrirsæta af Suðurnesjum sýndu svo fatnaðinn á sérstakri „flugbraut“ sem útbúin var í Atlantic Studios. Þar hafði verið sett upp sýningaraðstaða af bestu gerð með mögnuðum ljósum og tónlistarflutningi í stíl.
Meðfylgjandi myndband er samantekt frá tískusýningunni í gærkvöldi. Nánar verður svo fjallað um Heklugosið 2013 í Víkurfréttum í næstu viku.