Mánudagur 23. mars 2015 kl. 09:22

Gestastofa opnuð í Duus-húsum

– ásamt upplýsingamiðstöð ferðamanna

Gestastofa Reykjanes Jarðvangs hefur verið opnuð í Bryggjuhúsi DUUS-húsa í Reykjanesbæ. Samhliða henni er þar starfrækt upplýsingamiðstöð ferðamanna. Gestastofan og upplýsingamiðstöðin verða opin á opnunartíma Duus-húsanna.

Í gestastofunni er gerð grein fyrir myndun og gerð Reykjanesskagans, jarðsögu, jarðfræði, lífríki og mörgu öðru. Höfundur texta er Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Guðmundur Bernharð teiknaði kort og skýringarmyndir og hannaði sýningarspjöld. Ljósmyndir eru frá ýmsum ljósmyndurum og náttúrugripir frá Þekkingarsetrinu í Sandgerði og Náttúrufræðistofnun Íslands. Kvikmynd gerði Valdimar Leifsson. Sigurður Halldórsson gerði líkan með ljósamerkingum af Reykjanesskaga. Sýningarstjóri var Björn G. Björnsson og verkefnisstjóri Eggert Sólberg Jónsson.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa samþykkt að vinna að stofnun og þróun jarðvangs (geopark) á svæðinu. Stefnt er að því að sækja um alþjóðlega vottun á jarðvangnum og er hafinn undirbúningur umsóknar um aðild að European Geoparks Network og UNESCO Global Geoparks Network. Bundnar eru vonir við að árangur verkefnisins skili sér í fjölgun ferðafólks á svæðinu, eflingu vísindarannsókna, meiri samvinnu og uppbyggingu í ferðaþjónustu og dýpri og aukinni þekkingu á viðfangsefninu jarðvangur.