Föstudagur 17. júlí 2015 kl. 12:05

„Gerum þetta vonandi að árlegum viðburði,“ - video

Þrír félagar tóku sig til og syntu í sjónum frá Innri-Njarðvík til Ytri Njarðvíkur.

„Við byrjuðum að leika okkur í sjósundi í Nauthólsvíkinni í fyrra og fengum þá hugmynd að synda milli Njarðvíkanna,“ sögðu fyrrverandi körfuboltakapparnir Hreiðar Hreiðarsson og Kristinn Einarsson en með þeim var félagi þeirra Daníel Óskarsson. Þremenningarnir syntu frá Innri-Njarðvík inn í höfnina í Ytri-Njarðvík í fyrrakvöld.

Heiðar og Kristinn eru nýgræðingar í sjósundi en undirbjuggu sig í heilt ár fyrir þetta Njarðvíkursund en Daníel hefur synt sjósund í tólf ár. Leiðin úr Innri-Njarðvík í höfnina í Ytri-Njarðvík er um 1100 metrar og voru þeir kappar um hálftíma á leiðinni. Þeir létu duga að vera bara í sundskýlu og sokkum. Lítil trilla fylgdi þeim alla leið til öryggis. Þeir syntu því á ágætum hraða og voru hinir hressustu þegar þeir komu í land.

„Ég segi ekki að þetta hafi verið létt en þetta hafðist. Við vorum um hálftíma á leiðinni sem er ekki svo slæmt,“ sagði Hreiðar en félagi hans Kristinn sagði að það væri aðeins erfiðara að synda í sjó en í sundlaug. „Formið á manni mætti vera betra. Mér kólnaði aðeins í restina,“ sagði körfuboltakappinn. Daníel, sá vani, sagði að kannski yrði þetta uppátæki að árlegum viðburði. „Við tengjum þetta kannski sjómannadeginum,“ sagði hann og hló.

Afi Hreiðars, Karvel Ögmundsson synti oft fyrr á árum í sjónum í Njarðvík. Það gerðu bæjarbúar þó nokkuð í gamla daga. Karvel kafaði og skoðaði aðstæður þar sem höfnin er núna og lagði mikla áherslu á að velja vel stæði fyrir hana og staðsetningin yrði sem best í ljósi vinda og strauma. „Mér fannst tilvalið að prófa að synda hérna, ég hef oft vel þessu fyrir mér af hverju fólk var svona mikið í sjósundi í gamla daga. Ég veit þó ekki til þess að afi eða aðrir hafi synt á milli Innri- og Ytri Njarðvíkur. Þessi sundsprettur var því kannski aðeins tileinkaður honum en þó mest bara fjör hjá okkur félögunum,“ sagði Hreiðar.