Garðskagi er kynngimagnaður staður
„Garðskagi er kynngimagnaður staður í náttúru Íslands,“ segir námskeiðshaldarinn, Marta Eiríksdóttir, sem ætlar að þessu sinni með sumarfagnað kvenna, Gyðjur & Gleði á Garðskaga, námskeið sem hún hefur haldið í tíu skipti á Snæfellsnesi en fannst nú kominn tími til að breyta um staðsetningu.
„Já, ég er búin að vera með mjög vinsæl göngujóganámskeið á Garðskaga síðan um miðjan mars og langaði að gera eitthvað meira á svæðinu, sem er svo frábært útivistarsvæði.
Þessi gyðjuhelgi 5.–7. júní er fyrir allar konur sem vilja hrista upp í sjálfri sér, endurnýja orku sína og dusta rykið af draumunum sínum. Það verður margt skemmtilegt að gerast hjá konum þessa helgi en dagskráin samanstendur af gönguferðum, dansjóga og jógaæfingum innandyra og utan.
Sjóbað verður á dagskránni fyrir þær sem vilja prófa það. Þá verða teknar fyrir gleðiæfingar sem opna fyrir hláturinn og jákvæð hugþjálfun sem kennir þeim að efla vellíðan.
Konurnar gista allar í fallegum einkaherbergjum á Lighthouse Inn á Garðskaga. Þær munu hafa gaman á meðan dekrað verður við þær í mat og notalegheitum, allar máltíðir eru innifaldar.
Þetta verður sannkallað húsmæðraorlof kvenna sem vilja fara að heiman eina helgi og skemmta sér án áfengis með öðrum konum. Þessar helgar hafa alltaf slegið í gegn og verið mjög vinsælar á landsvísu. Nú verður spennandi að prófa nýjan stað fyrir þessa gleðihátíð.
Konur eru strax byrjaðar að skrá sig enda líst þeim vel á staðsetninguna og dagskrána sem getur hjálpað þeim að efla lífsgleði sína. Það er mikið hlegið og konur eru konum bestar þessa helgi, það er reynsla mín. Ég er mjög spennt að taka á móti konunum og hrista upp í þeim á jákvæðan hátt.
Skráning er komin á fullt og stéttarfélög styrkja svona sjálfstyrkingarnámskeið,“ segir Marta sem bendir konum á að finna hana á Facebook til að skrá sig og fá nánari upplýsingar.