Gærur, glimmer og gaddavír á síðkvöldssýningu
Sýningin Gærur, glimmer og gaddavír fjallar um tónlist og tíðaranda áratugarins 1970 – 1980 og er framhald af Með blik í auga sem sló í gegn á síðustu Ljósanótt en þá var fjallað um áratuginn 1950 – 1970.
Stemningin verður rifjuð upp í glæsilegri umgjörð þar sem m.a. verður flutt tónlist eftir Magnús og Jóhann, Bimkló, Stuðmenn, Mána og ýmsa fleiri. Hver man ekki eftir sjónvarpslausum fimmtudagskvöldum og útvarpsleikritunum á gufunni þegar hringvegurinn var málið, Spur og Miranda var drukkið í sjoppunum og saxbauti var í kvöldmatinn?
Flutt verða lög eins og: Ég elska alla, það er svo ótalmargt, Jón er kominn heim, þú ert minn súkkulaðiís, minning um mann, strax í dag, sail on, allir eru einhvers apaspil, Reykjavíkurborg, ég er á leiðinni og Riddari götunnar. Mörg þeirra laga sem flutt verða eru eftir Suðurnesjamenn og margir þeirra verða viðstaddir frumsýninguna. Því má segja að þetta sé líka óður til bítlamenningarinnar á Suðurnesjum og þess öfluga tónlistarlífs/tónlistarfólks sem hér hefur blómstrað.
Meðal flytjenda eru Valdimar Guðmundsson, Fríða Dís Guðmundsdóttir, Bríet Sunna Valdimarsdóttir og Hermannssynir; Guðmundur, Karl og Eiríkur. Fjöldi annarra tónlistarmanna af Suðurnesjum taka þátt ásamt hljómsveit.
Tónlistarstjóri er Arnór Vilbergsson.
Handritshöfundur og fararstjóri er Kristján Jóhannsson.
Síðkvöldssýning á fimmtudagskvöld
Það verður fjör í Andrews á fimmtudagskvöld kl. 22:00 en þá verður boðið upp á sýningu sem hentar vel fyrir þá sem fara á opnanir myndlistarsýninga fyrrr um kvöldið. Segja má að þar megi búast við stemmningu líkt og í ellefu bíósýningum í den.
Frumsýning er á miðvikudagskvöldið kl. 20:00 en lokasýning verður sunnudaginn 2. september kl. 20:00.
Miðasala er á midi.is