Fyrstir koma - fyrstir fara á sjó!
- Sjálfboðaliðarnir á Oddi V. Gíslasyni
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason frá Grindavík var kallað út á þriðja tímanum á mánudag þegar línuskipið Fjölnir GK frá Grindavík varð vélarvana um 30 sjómílur suður af Grindavík. Engin hætta var á ferðum enda veður stillt.
Það tók björgunarskipið um tvær klukkustundir að komast að Fjölni GK. Ferðin til Grindavíkur sóttist hins vegar seint en skipin voru komin til Grindavíkur skömmu fyrir miðnætti á mánudagskvöld.
Áhöfn björgunarskipsins er skipuð sjálfboðaliðum frá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. Björgunarsveit þeirra Grindvíkinga leggur mikla áherslu á sjóbjörgun og eru allir félagar sveitarinnar þjálfaðir til að fara í útköll á björgunarskipinu.
Sjónvarp Víkurfrétta tók á móti Oddi V. Gíslasyni þegar hann kom til hafnar á mánudagskvöldið og ræddi við skipsstjórann og vélstjórann á björgunarskipinu.