Fyrsti heiðursborgarinn ekki viss um sameiningu sveitarfélaganna
Ellert Eiríksson, fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var nýlega gerður að fyrsta heiðursborgara bæjarfélagsins. Tilkynnt var um þetta á fimm hundruðasta bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar sem haldinn var 17. maí. Á fundinum flutti Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri eftirfarandi erindi um Ellert:
Ellert Eiríksson er Suðurnesjamaður í húð og hár og hefur lengst af búið í Keflavík, síðan Reykjanesbæ. Hann fæddist 1. maí 1938 að Járngerðarstöðum í Grindavík, sonur Hansínu Kristjánsdóttur og Eiríks Tómassonar. Eftir andlát Eiríks fluttist fjölskyldan til Keflavíkur. Þá var Ellert þriggja ára og hefur hann verið búsettur hér síðan. Ellert var í fyrsta útskriftarhópnum úr Gagnfræðaskólanum í Keflavík, sem var fyrirrennari Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Ellert varð snemma pólitískur og var aðeins 12 ára gamall þegar hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þar urðu störfin fjölmörg og naut flokkurinn lengi krafta Ellerts. Ellert átti til að mynda sæti á framboðslistum flokksins í Reykjaneskjördæmi til þings og náði fyrsta varamannssæti árið 1987.
Ellert hefur einnig komið víða við í atvinnulífinu. Hann hóf störf hjá Keflavíkurbæ árið 1952 sem flokkstjóri í unglingavinnu yfir sumarið, sem þá var starfrækt í fyrsta sinn. Því starfi sinnti Ellert samhliða verkamannavinnu.
Ellert hefur einnig starfað sem messagutti, kokkur, barþjónn og verið lærlingur hjá bandarísku verktakafyrirtæki í slitlagagerð á þjóðvegum og hraðbrautum.
Ellert kom aftur til starfa hjá Keflavíkurbæ á sjöunda áratugum og starfaði fyrst sem flokksstjóri, síðan yfirverkstjóri hjá Áhaldahúsi Keflavíkurbæjar. Ellert var fulltrúi eiganda við byggingu þessa húss hér, Tjarnargötu 12.
Ellert var sveitastjóri Gerðahrepps á árunum 1982 til 1990 og Keflavíkur 1990 til 1994 eða þar til Keflavík sameinaðist Njarðvík og Höfnum undir Reykjanesbæ árið 1994. Ellert var því fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar og gegndi því starfi til ársins 2002.
Í störfum sínum sem bæjarstjóri kom Ellert að mörgum stórum og erfiðum málum. Má þar nefna sameiningu sveitarfélaganna þriggja í Reykjanesbæ og stóra nafnamálið þar, einsetningu grunnskóla og stórbætta húsnæðisaðstöðu skólanna, byggingu Reykjaneshallar, samningagerðir við Varnarliðið um sorpeyðingu, frárennslismál, brunavarnir, heilbrigðismál, afnot af Helguvíkurhöfn og almenn samskipti við yfirmenn Varnarliðsins og kaup á Duus húsum og landi undir smábátahöfn í Gróf eftir langt og strangt samningaferli.
Ellert hefur alla tíð starfað mikið að félagsmálum, pólitískum og ópólitískum. Hér má nefna JC Suðurnes og Lionsklúbb Keflavíkur og undir þeirra merkjum hefur hann starfað sem fulltrúi bæði hér heima og erlendis.
Ellert Eiríksson er vel að þessum heiðri kominn.
Í meðfylgjandi viðtali sem Sjónvarp Víkurfrétta átti við Ellert kemur bæjarstjórinn fyrrverandi inn á ýmis mál, m.a. sameiningarmál sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Ellert með eiginkonu sinni, Guðbjörgu Sigurðardóttur, dótturinni Guðbjörgu og fósturdótturinni Unu Björk.