Laugardagur 21. janúar 2017 kl. 14:39

Fyrsta lágvöruverðsverslun landsins

— Áhugavert innslag um Fischershús í Suðurnesjamagasíni

Árið 1877 varð Waldimar Fischer eigandi miðverslunar í Keflavík. Keflavíkurverslun hans er talin vera fyrsta lágvöruverslunin á Íslandi. Fischer byggði hús í Keflavík árið 1881. Í húsinu var verslunin á neðri hæð og faktorinn bjó á efri hæðinni. 
 
Fischershúsið var glæsilegt hús og fyrsta tvíloftaða húsið í Keflavík. Húsið var tilsniðið í Danmörku, hver spýta merkt áður en húsinu var pakkað niður og það síðan reist í Keflavík án þess að einn einast nagli væri notaður í grindina, allt var þar geirneglt.
 
Húsið var síðan lengi í höndum útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja og reyttust af því fjaðrirnar smám saman.
 
Húsið er órjúfanlegur hluti af verslunartorfunni í Keflavík og jafnframt djásn þeirar gömlu byggðar. Þessi verslunartorfa er ein sú heillegasta á landinu. 
 
Nú er unnið að endurnýjun hússins eftir teikningum V. Bjarnasonar arkitekts. Við hittum Pál í Fishershúsi og ræddum við hann um húsið.