Föstudagur 5. nóvember 2010 kl. 17:40

Friðrik fimmti á Flughóteli og svaka gellur í Leiru

Það er líf og fjör í skemmtanahaldi á Suðurnesjum næstu helgar og núna um helgina er hinn landsþekkti Friðrik V. gestakokkur á Vocal veitingastaðnum á Flughóteli.


Friðrik mun ásamt Kristjáni Gunnarssyni, matreiðslumeistara Vocal elda af sinni alkunnu snilld föstudags- og laugardagskvöld 5. og 6. nóvember. Við kíktum við í eldhúsinu á Vocal en héldum þaðan í eldhúsið í golfskálanum í Leiru en þar er sjávarréttakvöld fyrir herramenn í kvöld. Þar er Gunnar Páll Rúnarsson við stjórnvölinn en Friðrik V. segir að hann sé besti fiskikokkur á Íslandi. Hann kokkaði fyrir VF gellur eins og faðir hans, Rúnar Marvinsson gerði fyrstur manna hér á landi. Rúnar var einmitt fyrsti kokkurinn á sjávarréttakvöldi golfklúbbsins fyrir tuttugu árum síðan. „Father like son“ segir einhvers staðar.