Laugardagur 10. febrúar 2024 kl. 18:40

Forsetinn heimsótti Reykjanesbæ í kuldanum

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heimsótti hjúkrunarheimilin í Reykjanesbæ, hjúkrunardeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og aðgerðastjórn almannavarna á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Forsetafrúin, Eliza Jean Reid, var einnig með í för og yngsta dóttir þeirra hjóna, Edda Margrét.

Með heimsókn sinni vildi forsetinn sýna íbúum hjúkrunarheimilanna smá hlýju í því ástandi sem nú ríkir og kynna sér ástandið af eigin raun. Ferðalagið hófst á Hlévangi, þaðan var farið á Nesvelli en á þessum stöðum eru rekin hjúkrunarheimili Hrafnistu. Frá Hrafnistuheimilunum var farið á hjúkrunardeld HSS.


Í heimsókninni í aðgerðamiðstöð almannavarna fékk Guðni einnig að vita stöðu mála frá fyrstu hendi, en mikið hefur mætt á viðbragðsaðilum síðustu sólarhringa og í raun í margar vikur vegna endurtekinna umbrota við Grindavík.

Í lok ferðar gaf Guðni forseti sér tíma til að ræða við fréttamann Víkurfrétta um heimsóknina. Þar sagði hann m.a. að ef einhverjir ættu skilið að koma í kaffibolla á Bessastaði, þá væru það þau sem hafa staðið í ströngu síðasta sólarhring í að verja innviði og að takast á við þau vandamál og áskoranir sem upp hafa komið.


Ljósmyndir úr heimsókn forsetahjónanna til Reykjanesbæjar verða birtar á vf.is á morgun, sunnudag.