Forseti Íslands: Rokið á Suðurnesjum er auðlind
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði gesti í afmæli Keilis að Ásbrú síðdegis í gær. Þar gerði hann meðan annars „Suðurnesjarokið“ að umtalsefni. „Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með metnaðarfullum áformum Keilis og hvernig þeim hefur verið hrint í framkvæmd. Hér er að eflast alþjóðlegur flugskóli sem getur átt glæsta framtíð. Aðstæður á Suðurnesjum eru einstaklega vel fallnar til flugnáms enda kemur þar að góðum notum rokið sem heimamenn formæla á stundum. Það er í þessum efnum aðdráttarafl, í rauninni auðlind þótt heimamönnum sé slíkt framandi hugsun,“ sagði Ólafur m.a. í ávarpi sínu. Hægt er að horfa á ávarpið í meðfylgjandi myndskeiði.