Forsetahjónin í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta
Forsetahjónin voru gestir flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem þau kynntu sér starfsemi löggreglunnar og landamæravarða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni. Suðurnesjamagasín var á staðnum og ræddi við þau Guðna og Elizu. Við töluðum einnig við Arngrím Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjón um störf lögreglunnar í flugstöðinni. Þá hittum við einnig veitingakonuna Höllu Svansdóttur sem er með veitingarekstur í suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Veitingastaðurinn þar hefur verið lokaður í kófinu og opnar ekki fyrr en í fyrsta lagi í haust eða þegar nær dregur jólum. Allt um það í þættinum.
Við hittum einnig börn úr Myllubakkaskóla sem höfðu verið að kynna sér barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá fáum við innslag frá gestafréttamönnum úr Fjörheimum og 88 húsinu.
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar kl. 19:30 á fimmtudagskvöldum. Þátturinn er aðgengilegur á vf.is á sama tíma.