Laugardagur 8. september 2018 kl. 13:37

Fólk komi brosandi úr ferðalagi um Ísland

- Innslag úr Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta

Ferðaþjónustufyrirtækið Happy Campers í Reykjanesbæ varð til fyrir næstum áratug síðan en það hreiðraði um sig í Reykjanesbæ fyrir tveimur árum. Hjónin Herdís Jónsdóttir og Sverrir Þorsteinsson höfðu verið í verslunarrekstri í tvo áratugi en vildu söðla um og gera eitthvað annað og þá helst tengt ferðaþjónustu. Sverrir rifjar upp í samtali við blaðamann Víkurfrétta að í fréttum á þessum tíma hafi verið rætt um vöntun á bílaleigubílum á markaðnum hér heima. Þau hafi ekki viljað fara út í rekstur á venjulegri bílaleigu.
 
„Svo kom þessi hugmynd við eldhúsborðið eitt kvöldið að útbúa ferðabíla sem bæði væri auðvelt að ferðast í og að gista. Fyrsta hugmyndin var eins konar tjald eða hús á hjólum. Þetta kemur til þar sem minn bakgrunnur er hjólamennska. Ég hef ferðast um allan heiminn á mótorhjólum og þar er einfaldleikinn í fyrirrúmi og þú hefur ekki pláss fyrir margt þegar þú ert á mótorhjólinu þínu. Ég pikkaði upp hluti sem ég hef séð á ferðalögum mínum um heiminn og við nýttum okkur það ástand sem var á þessum tíma þegar við byrjuðum. Það var hægt að fá mikið af bílum ódýrt. Við hérna hjá Happy Campers erum óhrædd við að prófa nýja hluti, við keyptum bíl og hófumst svo handa við að innrétta hann,“ segir Sverrir. „Það tók tvær eða þrjár tilraunir þar til að rétta innréttingin var komin og síðan þá hefur þetta bara þróast.“

 
Innrétta bílana sjálf
 
Happy Campers innrétta alla sína bíla sjálf. Þau fá til sín tóma sendibíla og innrétta þá frá grunni í húsnæði fyrirtækisins við Stapabraut í Innri Njarðvík, þar sem Go-Kart brautin var í eina tíð. Bílarnir frá fyrirtækinu vekja athygli og þá aðallega fyrir litagleði og það er meðvitað að hafa bílana í glaðlegum og skemmtilegum litum. Bílarnir eru gulir, rauðir og grænir og með áberandi merkingum sem sýna gras, tré og fugla sem vísa til náttúrunnar.
 
„Þegar þú sérð bíl frá okkur úti á götu þá brosir þú jafnvel. Hugmyndafræðin okkar á bakvið þetta allt er hamingja,“ segir Sverrir.
 
Vörumerkið „Happy Campers“ er ekki alþjóðleg keðja, heldur íslenskt fyrirtæki þeirra hjóna og reyndar bara talsvert fjölskyldufyrirtæki því börn þeirra Sverris og Herdísar vinna einnig hjá ferðaþjónustufyrirtækinu, enda í mörgu að snúast. Happy Campers er þó að verða alþjóðlegra því núna hefur verið opnað útibú í Suður-Afríku og jafnvel verður opnað víðar í náinni framtíð.
 
Flestir frá Norður-Ameríku
 
Stærsti viðskiptahópurinn kemur í dag frá Norður-Ameríku og Norður-Evrópu. Hins vegar er fólk að koma víðsvegar að. Viðskiptavinirnir eru einnig á öllum aldri, bæði ungt fólk og einnig eldri. Bílarnir eru leigðir út í minnst þrjár nætur en fjölmargir leigja þá til vikudvalar og núna er t.a.m. kona á ferðalagi um Ísland sem ætlar að gista 40 nætur í bíl frá Happy Campers.
 
Hringvegurinn um Ísland með útúrdúrum er helsta söluvara Happy Campers. „Við leggjum á það áherslu við okkar viðskiptavini að okkar bílar megi ekki fara inn á hálendið,“ segir Sverrir og því eru ferðalangar hvattir til að halda sig við malbikaða vegi og þessa venjulegu malarvegi.



Mikil áhersla á fræðslu

Sverrir segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að uppfræða viðskiptavini sína áður en þeir leggja í ferðalög um landið. Í afgreiðslu Happy Campers við Stapabrautina er gott fræðsluhorn, þar er t.a.m. stór snertiskjár þar sem nálgast má mikið magn upplýsinga á aðgengilegan hátt. Þá hefur Happy Campers útbúið sitt eigið tjaldstæðakort fyrir viðskiptavini sína sem sýnir öll íslensk tjaldstæði sem opin eru annað hvort yfir sumarið eða allan ársins hring.
 
„Það er okkar akkur að fá fólkið brosandi til baka úr ferðalagi um landið og því leggjum við mikla áherslu á góðar leiðbeiningar um íslenska náttúru og vegi, hvað beri að varast og hvað sé áhugavert að upplifa,“ segir Sverrir.
 
Þau Herdís og Sverrir hrósa viðskiptavinum sínum fyrir umgengni um bílana. Þeim sé skilað í toppstandi til baka að leigutíma liðnum og stundum svo tandurhreinum að ekkert þurfi að gera fyrir þá áður en þeir eru leigðir út að nýju.

 
Þrjár stærðir bíla
 
Happy Campers leigir út þrjár stærðir af bílum. Happy 1 er tveggja sæta og með svefnplássi fyrir tvo. Happy 2 er fjögurra sæta en með svefnplássi fyrir tvo. Þá er Happy 3 með sætis- og svefnpláss fyrir fimm manns. Einnig er í boði Happy 3 EX sem er með sætis- og svefnplássi fyrir fjóra. Þá er í boði að leigja ýmiskonar útilegubúnað með bílunum en þeim fylgja einnig sængur og koddar ásamt eldunarbúnaði og áhöldum.

 

Happy Campers á Instagram // Svipmyndir