Flugstöð Leifs Eiríkssonar stækkar um 7000 fermetra
Milljón farþegar á mánuði munu fara um stöðina næsta sumar að sögn Guðmunds Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar.
Stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar heldur áfram til að bregðast við aukinni flugumferð um Keflavíkurflugvöll. Stærsta framkvæmdin þessi misserin er 7000 fermetra stækkun á suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Þar er verið að bæta við tveimur biðsölum fyrir farþega auk þess að auka verslunar- og veitingasvæði. Þá verður landamærasalurinn einnig stækkaður í þessari framkvæmd.
Í Suðurnesjamagasíni eru framkvæmdirnar skoðaðar og rætt er við Pál Svavar Pálsson, deildarstjóra verklegra framkvæmda og skipulags, en hann segir framkvæmdirnar ganga vel og samskipti við starfsmenn í þjónustustörfum á vellinum séu mjög góð, enda sé það afar mikilvægt. Einnig er rætt við Guðmund Daða Rúnarsson, framkvæmdastjóra tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar.
Gamli landgangurinn sem tengir norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar hefur verið rifinn á um 75 metra kafla. Það var talsvert verk en nýja byggingin er byggð utanum landganginn, sem mun þrefaldast í breidd. Útbúin var bráðabirgða gönguleið og síðan var notast við vélmenni til að mylja niður gamla landbanginn sem var stálgrindarbygging á öflugum steyptum undirstöðum. Allt þarf þetta svo að gerast án þess að farþegar finni fyrir ónæði vegna framkvæmda.
Á efstu hæð nýju viðbyggingarinnar við suðurbygginguna verður nýr Saga Lounge hjá Icelandair. Í augnablikinu er Saga Lounge í bráðabirgðasal í suðurbyggingunni en þegar hann opnar á efstu hæðinni verður aðstaðan fjórum sinnum stærri en farþegar eiga að venjast og á góðum degi er mikilfenglegt útsýni úr byggingunni. Guðmundur Daði segir þá 7000 fermetra af nýbyggingum og 2000 fermetra af eldra húsnæði sem sé í endurnýjun vera til þess að takast á við árið 2017 og næstu ár.
Bráðabirgðabiðstofa Icelandair á Keflavíkurflugvelli.