Fjölskyldufyrirtæki í Vogum varð til þegar frúin rak kallinn í land
Beitir er fjölskyldufyrirtæki sem hóf starfsemi í 70 fermetra bílskúr í Vogum árið 1989. Eigendur fyrirtækisins eru Hafsteinn Ólafsson og Þóra Bragadóttir. Fyrirtækið varð til þegar Þóra var búin að ala upp tvö eldri þeirra hjóna og tilkynnti bónda sínum að nú væri komið að honum að ala upp tvö yngri börnin. Hafsteinn var á þessum tíma vélstjóri til sjós á stærstu loðnuskipum íslenska flotans, síðast á Guðmundi RE. Hann var því lítið heima en frúin setti honum stólinn fyrir dyrnar og sagði honum að koma í land.
Hafsteinn varð að finna sér eitthvað að gera í landi og úr varð að bílskúrinn við heimili þeirra í Vogum var tekinn undir smiðju þar sem hafist var handa við blandaða smíðavinnu en fljótlega var farið í sérhæfingu í ryðfríu stáli sem hefur haldist síðan. Beitir smíðar í dag flest tæki úr ryðfríu stáli fyrir fiskvinnslu- og matvælaiðnað. Fyrirtækið er best þekkt fyrir framleiðslu á beitningartrektum, línuspilum og beituskurðarhnífum fyrir 6 til 100 tonna báta.
Fyrsta afurð fyrirtækisins varð beitingartrekt og þar kom nafnið á fyrirtækinu, Beitir. Beitningartrektin var sýnd á sjávarútvegssýningu í Laugardalshöll og þar með var boltinn farinn að rúlla. „Frá þessum tíma höfum við verið með fókusinn á línuveiðum og öllu sem þeim tilheyrir,“ segir Hafsteinn í samtali við Víkurfréttir. „Í framhaldi af beitningartrektinni var beðið um línuspil og færaspil, lyftukör og þvottakör um borð í bátana, aðgerðaraðstöðu og fleira. Nú var komið að þeim tímamótum að plássið í bílskúrnum var búið og því varð að taka ákvörðun um að annað hvort að hætta eða halda áfram að byggja upp fyrirtækið. Við ákváðum að halda áfram og byggðum 500 fermetra hús yfir starfsemina við Jónsvör í Vogum og fluttum þar inn árið 2000. Það er gaman að starfa hér og við gátum leyft okkur að kaupa betri tækjabúnað. Nýja húsið gerði okkur einnig kleyft að fara víðar og smíða meira og það hefur gengið mjög vel,“ segir Hafsteinn.
Elsti starfsmaðurinn að verða 87 ára
- Þið smíðið næstum allt frá grunni.
„Já, það er nánast allt smíðað hér. Það eru aðeins rótorar sem þarf að nota við spilin sem við fáum erlendis frá og línuskífur sem steyptar eru fyrir okkur í Danmörku. Annað er smíðað hér innanhúss hjá okkur. Við erum með mjög færa starfsmenn hér hjá okkur sem hafa verið lengi. Ég er með rennismið af gamla skólanum, hann Svein Einarsson. Hann er með 67 ára starfsreynslu í rennismíði en hann er að verða 87 ára gamall. Okkur þykir vænt um það að hann skuli vera hér enn. Við erum fimm á gólfinu að smíða og svo er frúin með bókhaldið og fjármálin, starfar sem sendill og allt mögulegt þar á milli“.
- Hvernig ertu að selja vörur fyrirtækisnis. Hvernig lætur þú þetta spyrjast út?
„Það er helst gert með því að fara á sýningar og vera sýnilegur sjálfur á bryggjunni. Sem dæmi um það má nefna að síðasta sumar fórum við hjónin í mikið ferðalag um Norður-Noreg í einn og hálfan mánuð. Í stað þess að fara á sjávarútvegssýningu í Þrándheimi fórum við í ferðalag og keyrðum allan Norður-Noreg, fórum á bryggjurnar og hittum sjómennina. Það skilaði okkur mikilli athygli á sýningu sem við fórum á nú í apríl í Kabelvåg í Lófóten.
Við fórum með þrettán línuspil og hluti sem fylgja þeim á þá sýningu. Þetta seldist allt á sýningunni og meira til. Við erum í þessari viku að senda þrjú línuspil til viðbótar til Noregs og við verðum að senda þau með flugi. Staðan er líka sú að lagerinn er enginn eins og stendur og nóg að gera í að framleiða upp í pantanir“.
- Hver er munurinn á þeim búnaði sem þú smíðar fyrir íslenska línuflotann og þann norska?
„Hann er þó nokkur. Norðmenn beita öðrum aðferðum við línuveiðar en við Íslendingar. Þeir eru með mun grennri línu, eins og var hér á Íslandi fyrir um 15 árum. Svo eru þeir með þessa svokölluðu girnislínu sem menn hafa ekki náð tökum á hér heima. Þeir virðast ná ágætis tökum á henni og enn betri eftir að þeir fengu línuspilið frá okkur og geta dregið hana svona hratt því hún hringast í balann eins og venjuleg lína. Þetta kom mönnum á óvart og gerir það að verkum að þeir geta lagt helmingi lengri línu og dregið hana á betri tíma en áður með þeim búnaði sem þeir höfðu og er norskur“.
12.000 km bryggjurúntur um Noreg
Á ferð þeirra Hafsteins og Þóru um Norður-Noreg síðasta sumar fór Hafsteinn í nokkra línuróðra og sá hvernig búnaðurinn frá Beiti virkaði við norskar aðstæður og hverjir hnökrarnir væru. Hann ræddi málin við sjómennina og fór í að leysa vandamálin. „Það eru engin vandamál þannig að ekki sé hægt að finna á þeim lausn,“ segir Hafsteinn og nú sendir hann út breytta útgáfu af línuspilum en þau eru öðruvísi fyrir norska markaðinn en þann íslenska.
- Þú vilt meina að þetta ferðalag ykkar um Noreg í fyrra hafi skilað sér vel á sýningunni nú í apríl?
„Ekki spurning. Þetta er sú besta auglýsing sem við höfum nokkurn tímann fengið. Nánast hver einasti maður sem kom til okkar á sýningunni vissi það að við höfðum farið hringferð um hafnirnar í Norður-Noregi, allt frá Kirkenes og niður til Lófóten sem er gríðarlegt svæði. Við ókum t.a.m. um 12.000 kílómetra á þessu ferðalagi okkar sem tók sex vikur. Við fengum líka að vita það að norsku fyrirtækin eru ekki að gera þetta. Þau bíða bara við símann eftir pöntunum. Við lofuðum því að koma annað hvert ár og fara á milli hafna í stað þess að fara á sýninguna í Þrándheimi. Við ætlum á þessu ferðalagi að vera til staðar að leysa vandamál og gefa góð ráð. Við erum einnig með umboðsmann þarna norðurfrá og erum að byggja upp varahlutalager þar.
Ánægður með fraktflutninga Icelandair
Hafsteinn segir að í fyrstu hafi Norðmennirnir verið hræddir við að skipta við Beiti og fundist fyrirtækið vera langt í burtu, staðsett í Vogum á Íslandi og þjónustan gæti orðið erfið. „Það hefur orðið algjörlega öfugt. Samstarf Icelandair og SAS er mjög gott og það tekur aldrei meira en tvo til þrjá daga að koma vörum og varahlutum á áfangastað, jafnvel þó svo við sendum heilt línuspil“.
Norðmenn hafa fram til þessa sætt sig við langan afgreiðslufrest á ýmsum aðföngum og þeim þykir ekkert sjálfsagðara en að keyra í fjóra til sex tíma til að sækja varahluti eða önnur aðföng. Vegalengdir eru það miklar á þessum slóðum.
Noregsmarkaður skiptir miklu máli
Noregsmarkaður skiptir fyrirtækið í Vogum miklu máli og er orðinn miklu stærri en markaðurinn hér heima. Línubátum þar er einnig að fjölga mikið. „Norðmenn eru að átta sig á því að línuveiðar skapa miklu meiri verðmæti og betra hráefni,“ segir Hafsteinn.
Þau Hafsteinn og Þóra reyna að miða rekstur og verkefni fyrirtækisins við þann starfsmannafjölda sem nú er hjá fyrirtækinu, því það sé fyrst og fremst fjölskyldufyrirtæki. Nú séu yngri fjölskyldumeðlimir að koma inn í fyrirtækið. „Þeir koma hingað fljótlega sonur okkar og dætrasynir tveir sem hafa starfað hér síðustu 3-4 ár. Það kemur að því að þeir taki við þessu og þá verður gaman að sjá hvað ný kynslóð í fyrirtækinu gerir. Við höldum vel sjó í dag og erum að huga að því að bæta enn frekar við tækjabúnað. Við sjáum hvað gerist. Allt hefur sinn tíma,“ segir Hafsteinn Ólafsson að endingu.
Texti: Hilmar Bragi Bárðarson // [email protected]
Sveinn Einarsson, Þóra Bragadóttir, Hafsteinn Ólafsson og Arkadiusz Dabkowski.
Frá sjávarútvegssýningunni í Lófóten á dögunum.
Hafsteinn og Þóra óku 12.000 km. um norðanverðan Noreg og ræddu við sjómenn um þann búnað sem Beitir framleiðir.