Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 24. maí 2023 kl. 13:33

Fjölmennur verkfallshópur mótmælti í ráðhúsi Reykjanesbæjar - myndskeið

„Þetta er hópurinn sem er á lægstu laununum og þarf að velta fyrir sér hverri krónu og þetta er hópurinn sem sveitarfélögin eru að mismuna í launum. Það er barátta við sveitarfélögin að fá leiðréttingu í gegn. Þið bæjarstjórnarfólk berið ábyrgð en ekki samninganefnd BSRB. Ég vil bara að þið komið til móts við þetta fólk og borgið þeim sömu laun og aðrir fá í sveitarfélaginu,“ sagði Trausti Björgvinsson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða í ræðu í Ráðhúsi Reykjanesbæjar í morgun sem hann flutti fyrir hönd hóps tæplega 170 starfsmanna Reykjanesbæjar sem eru í verkfallsaðgerðum.

Stór hópur starfsfólks úr grunnskólunum, þó ekki kennarar, mætti í ráðhúsið til að sýna samstöðu og vildi með því senda skilaboð til ráðamanna sveitarfélagsins í þessari launadeilu sem nú stendur yfir. Verkföllin hafa mikil áhrif inn í grunnskólana og munu hafa áhrif á starfsemi leikskóla og víðar á næstunni.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri og Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs tóku á móti hópnum. Bæjarstjóri sagði að öll sveitarfélög hafi falið samninganefnd að semja fyrir sig í þessari deilu. „Það er okkar ósk, jafn mikil og ykkar að samkomulag náist. Þið eruð öll að gæta mikilvægra starfa. Við viljum öll að samningar takist en við verðum að ná samkomulagi,“ sagði Kjartan sem gagnrýndi í leiðinni forystu BSRB fyrirauglýsingaspjöld og auglýsingar sem hann taldi líklega ólögleg. Þessar auglýsingar á kröfuspjöldum m.a. voru settar fram með nafni Reykjanesbæjar.