Fimmtudagur 7. október 2010 kl. 20:10

Fjölmenn mótmæli við HSS í Keflavík

Nú standa yfir fjölmenn mótmæli í skrúðgarðinum í Keflavík við hliðina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Mótmælin eru þögul en þarna eru samankomin hundruð Suðurnesjamanna til að láta í ljós óánægju sína með fyrirhugaðan niðurskurð hjá stofnuninni sem kemur fram í fjárlögum ríkisins fyrir næsta ár.


Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja tóku forskot á mótmælastöðuna nú áðan og stóðu eftir borgarafundinn í Stapa í röð á miðri Njarðarbrautinni og lýstu upp svæðið með rauðum blysum en sem kunnugt er af fréttum er framundan tæplega 25% niðurskurður þar á bæ sem mun þýða að stofnunin mun lamast og 60-80 manns munu missa atvinnuna.

Meðfylgjandi myndskeið var tekið af blysstöðunni nú áðan.

Ljósmynd: Páll Ketilsson
Myndband: Hilmar Bragi Bárðarson