Fjölbreytt Suðurnesjamagasín úr smiðju Víkurfrétta
Það er fjölbreyttur þáttur af Suðurnesjamagasíni í þessari viku. Við tökum hús á áttræðum smiði sem starfar hjá Sparra í Reykjanesbæ. Frímann Gústafsson hefur verið á vinnumarkaði frá því hann var tólf ára og er enn að þó svo hann hafi orðið 80 ára á dögunum. Hann má reyndar bara vinna í átta klukkustundir á viku án þess að það hafi áhrif á ellilífeyrinn og Frímann gerir m.a. athugasemdir við það í viðtali við Suðurnesjamagasín.
Við förum líka á veitingastaðinn Langbest á Ásbrú og heyrum í veitingamanninum Ingólfi Karlssyni og sjáum hvernig hann og hans fólk tekur á kórónuveirufaraldrinum.
Ívar Gunnarsson er vídeóbloggari í Reykjanesbæ og er að gera skemmtileg myndbönd um Reykjanesskagann. Við sýndum eitt myndband frá honum í síðasta þætti og nú kynnumst við kappanum betur.
Már Gunnarsson var að gefa út ábreiðu af laginu Heyr mína bæn. Við heyrum brot úr laginu og ræðum við tónlistarmanninn um lagið og fáum að vita að það eru fleiri lög í pípunum.
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöldum kl. 20:30. Þáttinn má sjá í spilaranum hér að ofan í háskerpu.