Fjölbreytt Suðurnesjamagasín í þessari viku
Suðurnesjamagasín þessa vikuna var fjölbreyttur og skemmtilegur þáttur. Við förum í júdó, skoðum gamlar ljósmyndir, kíkjum á Rokksafn Íslands og sjáum pakksadda golþorska í Sandgerði.
Hvað á fólk að gera sem getur ekki eignast húsnæði því það er of tekjulágt til þess að standast greiðslumat frá bankanum? Frænkurnar, Gyða Björk Hilmarsdóttir og Margrét Sif Sigurðardóttir, fundu lausn á þessu máli. Marta Eiríksdóttir heimsótti frænkurnar í Suðurnesjabæ.
Gífurleg aukning stelpna í bardagaíþróttum hefur átt sér stað síðustu ár og fleiri stelpur æfa nú hjá júdódeild UMFN en nokkru sinni fyrr. Stofnaður hefur verið sérstakur stúlknahópur innan deildarinnar sem er skipaður stelpum, alls staðar af á Suðurnesjum, á aldrinum ellefu til sextán ára. Sólborg Guðbrandsdóttir kíktil á æfingu hjá júdó-stelpunum í nýju bardagahúsi í Reykjanesbæ
Nú stendur yfir ljósmyndasýningin „Fólk í kaupstað“ í Duus Safnahúsum. sýningunni gefur að líta örlítið sýnishorn af ljósmyndum í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar. Þema sýningarinnar er fólk og fjölbreytt mannlíf í kaupstaðnum Keflavík og nágrannabænum Njarðvík á árunum 1944 til 1994. Hilmar Bragi kíkti á sýninguna og ræddi við safnstjóra byggðasafnsins um ljósmyndasafnið.
Sjómenn eru núna að moka upp þorski við Garðskaga. Fiskurinn er fallegur og kjaftfullur af loðnu. Veiðin hefur verið góð alveg frá áramótum eins og Hilmar Bragi komst að þegar hann kíkti í löndun hjá Sunnu Líf í Sandgerði.
Rokksafn Íslands hlaut Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi árið 2019 en þau voru afhent á vetrarfundi ferðaþjónustunnar í Hljómahöll. Rokksafnið er að taka miklum breytingum þar sem nýjasta tækni kemur við sögu.