Föstudagur 20. október 2017 kl. 14:55

Fjársvelt Suðurnes lengi verið staðreynd

Sveitastjórnarfólk á Suðurnesjum hefur lengi vitað að svæðið hefur fengið mun minna fjármagn frá ríkinu en önnur svæði á landinu og komu niðurstöður opins fundar í gær, þar sem niðurstöður voru sýndar svart á hvít, þeim því ekki á óvart. Það hefur margoft sent frá sér sameiginlegar ályktanir til ráðamann þjóðarinnar um vandann sem virðast ekki hafa hlotið hljómgrunn. 
 
 
Þingmenn Suðurkjördæmis sem kváðu sér hljóðs á fundinum í gær sögðust kannast við vandann. Sumir kváðust ekki hafa áttað sig á að munurinn væri eins mikill og rannsókn Dr. Hugins Freys Þorsteinssonar hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton gefa til kynna. Einn þingmanna líkti ríkinu við flugmóðurskip þegar kemur að breytingum.
 
Íbúafjölgun í Reykjanesbæ hefur verið fordæmalaus á undanförnum árum, allt upp í tæp 8% á ári, sem er langt umfram landsmeðaltal. Sömu sögu er að segja um fjölgun ferðamanna sem bæði kallar á aukið álag á innviðina í nágrenni flugstöðvar en ekki síður á aukinn mannafla við mikinn uppgang í flugi og flugtengdri starfsemi. Í inngangserindi Kjartan Más Kjartanssonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar kom fram að á Norðurlöndum séu þau svæði þar sem íbúum fjölgar um meira en 1,5% á ári skilgreind sem vaxtarsvæði og ríkið komi að og aðstoði. Mikilli fjölgun fylgi mikið álag á innviði, byggja þurfi grunn- og leikskóla, leggja götur og fleira.
 
Svo virðist sem gleymst hafi að taka mið af mikilli fólksfjölgun við útdeilingu fjármuna til verkefna ríkisins á svæðinu. Upplýsinga fyrir úttektina var einnig aflað úr frumvarpi til fjárlaga ársins 2018, auk upplýsinga frá stofnunum sem eru með starfsemi á svæðinu og eru háðar fjármögnun frá ríkinu. Kjartan Már sagðist vona að vandamálið hafi náð eyrum þeirra þingmanna og frambjóðenda sem mættu á fundinn svo hægt sé að hefjast samtal um leiðir til úrbóta.
 
Reykjanesbær hefur verið í fjárhagslegri endurskipulagningu á undanförnum árum og hefur þurft að draga saman seglin. Góður árangur hefur þó náðst með þrotlausri vinnu, en gæta verður áframhaldandi aðhalds á næstu árum.
 
Bæjarstjórn Reykjanesbær lét gera úttektina enda höfðu bæjarfulltrúar lengi grunað að pottur væri brotinn í fjárframlagi ríkisins til verkefna á Suðurnesjum. Mikill fjöldi fólks var á fundinum og margir tóku til máls. 
 
Fundinum var streymt gegnum Facebook síðu Víkurfrétta fyrir þá sem ekki áttu að heimangengt.