Fjármálaráðherra: Mikil umsvif í ferðaþjónustu á Suðurnesjum í sumar
Suðurnesjamenn eiga í vændum gott sumar í ferðaþjónustunni með miklum umsvifum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og tengdri starfsemi eins og hjá bílaleigum og í annarri starfsemi tengdri ferðaþjónustu. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í viðtali við Víkurfréttir. Hann segist fylgjast vel með í ferðaþjónustunni og horfurnar þar séu góðar og eigi eftir að hafa góð atvinnuáhrif á Suðurnesjum.
Víkurfréttir ræddu við fjármálaráðherra í Suðurnesjaheimsókn hans í nýliðinni viku þar sem hann mætti á blaðamannafund til að kynna þá ákvörðun ríkisvaldsins að SpKef Sparisjóður og Landsbankinn myndu renna saman í eina bankastofnun.
„Við erum mjög vel meðvituð um það að þetta [samruni bankanna] hefur áhrif á viðkvæmum svæðum sem eru Suðurnes og Vestfirðir og Landsbankinn er sér vel meðvitaður um það. Við höfum lagt á það áherslu við bankann að hann geri algerlega sitt ítrasta til þess að þetta valdi sem minnstri röskun og fækkun starfa og helst ekki,“ sagði Steingrímur í samtali við Víkurféttir.
Aðspurður um atvinnumál á Suðurnesjum og samninga um kísilver, sagði Steingrímur að allir samningar væru klárir varðandi kísilver í Helguvík. Hann sagði hins vegar vera fyrirvarar inni í þeim samningum með hefðbundnum hætti á báðar hliðar.
„Miðað við mín samtöl við forstjórann, sem var með okkur hér á dögunum, þá líta þeir sömuleiðis á að málið sé í höfn. Málið er að mínu mati komið á beina braut“.
Aðspurður um álver í Helguvík og hvort að Suðurnesin geti lifað af án álvers, sagði Steingrímur:
„Já, það er ég algjörlega sannfærður um en auðvitað er mjög mikilvægt að hér komist góður kraftur í fjárfestingu og uppbyggingu aftur. Það er alveg ljóst. Atvinnuástandið er hér mjög alvarlegt og við tökum það öll alvarlega og nærri okkur þannig að ég geri ekki lítið úr þörf Suðurnesja, frekar en margra annarra staða og hagkerfisins í heild, að hlutirnir komist á betri snúning. En í raun er það nú svo að suðvestanvert landið er runnið saman sem einn atvinnumarkaður, þannig að um leið og fer að ganga almennt betur hjá okkur, þá nýtur allt svæðið þess, Suðurnes jafnt og nálæg byggðarlög höfuðborginni“.
Viðtalið við Steingrím má sjá hér í Sjónvarpi Víkurfrétta á vf.is.