Fjármálaráðherra: Glaðastur manna ef gagnaverið fer á fulla ferð
Mikið mæddi á Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á borgarafundi í Stapa nú síðdegis þar sem honum var gert að svara fjömörgum spurningum sem brunnu á fundarmönnum um atvinnuuppbyggingu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Steingrímur telur að lang vænlegast sé að stjórnvöld og heimamenn reyni að taka höndum saman til að vinna að sameiginlega á því úrlausnarefni sem er til staðar á Suðurnesjum. Varðandi álver í Helguvík segir Steingrímur að Vinstri grænir hafi gert samkomulag um álverið þegar gengið var til ríkisstjórnar og segir að VG hafi ekki lagt stein í götu þessa máls á ómálefnalegum forsendum. Það ætti því ekkert að stoppa álver ef samkomulag verður um orkumál og þau strandi ekki á borði ríkisstjórnarinnar.
Víkurfréttir tóku ítarlegt viðtal við Steingrím Jóhann Sigfússon fjármálaráðherra eftir fundinn þar sem hann svaraði ýmsum spurningum er varða málefni Suðurnesja á einn eða annan hátt. Hér birtist fyrsti hluti viðtalsins. Steingrímur svarar svo fleiri spurningum hér á vf.is á morgun.
- Hver er þín niðurstaða eftir þennan fund?
„Þetta var góður fundur og ég þáði með þökkum að fá að koma hingað þegar eftir því var óskað að ég kæmi hingað og ræddi stöðu mála. Í mínum huga er þetta stórt samsett mál sem við erum að takast á við. Allt Ísland er í erfiðleikum en síðan eru þeir alveg sérstaklega mikir hér. Auðvitað horfa menn á atvinnuþáttinn og atvinnuleysið sem er hið mesta á landinu en reyndar er við fleiri erfiðleika að glíma. Þetta er samþættur vandi sem á sér ýmsar skýringar og það þarf að takast á við það á öllum vígstöðvum. Ég tel að lang vænlegast sé að stjórnvöld og heimamenn reyni að taka höndum saman og hætti að karpa í fjölmiðlum og hætti tilgangslausu hnútukasti og umkenningarleik og reyni að vinna sameiginlega að þessu úrlausnarefni eins og öðrum sem við er að glíma“.
- Það voru kynnt hérna fjölmörg verkefni á fyrri fundinum sem Ögmundur Jónasson ráðherra sótti og Suðurnesjamönnum fannst hann ekki svara þeim nógu vel þegar spurt er um svona risastórt verkefni eins og álver. Styður ríkisstjórnin það?
„Hér eru ýmis framkvæmdaáform og sum þeirra komin á rekspöl en önnur hafa tafist. Sum þeirra eru umdeild eins og vissulega bygging álversins og var það frá byrjun og ýmsir höfðu efasemdir um það. Sumar þeirra hafa reynst réttmætar að það væru veikleikar í orkuöflunarþættinum. Engu að síður var það nú þannig að þegar ríkisstjórnin var mynduð og stöðugleikasáttmálinn var gerður að þá var ákveðið að draga bara línu í sandinn og segja að þau áform sem búið var að ákveða að ráðast í ganga bara sinn gang og síðan hefur verið unnið á þeim grunni á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég bara fullyrði það að að það er ekkert af því sem að núna tefur, t.d. í tilviki Helguvíkur, á borði ríkisstjórnarinnar eða að það sé við hana að sakast. Það er fyrst og fremst tvennt eins og ég greini stöðuna, það eru veikleikarnir í orkuöflunarþættinum sjálfum, að einhverju leiti að ná samningum um orkuverðið, og svo er það fjármögnunin, þ.e.a.s. fjármögnunin virkjunarmegin frá, vegna þess að orkufyrirtækin hafa lent í miklum hremmingum og eiga þar í erfiðleikum.
Varðarndi ýmis önnur verkefni þá myndi maður verða glaðastur manna ef að t.d. gagnaverið færi nú aftur á fulla ferð. Það er dæmi um iðnað, græna starfsemi, fjölbreyttari þróun sem ég væri mjög hlyntur. Svipað gildir um fleir svona minni og meðalstjóra iðnaðarkosti. Ef þeir kæmust í gang, þá myndi maður fagna því“.
- Þú ert sem sagt að segja „já“ við spurningunni að þið styðjið uppbyggingu atvinnulífs í Helguvík með álveri?
„Helguvíkurálverið var mjög umdeilt. Við vorum á móti þeim áformum á sínum tíma. Við gerðum hins vegar málamiðlun um það hvernig farið yrði með það mál og við höfum ekki lagt stein í götu þess eftir það. Það er bara á hreinu. Það eru þá faglegar ástæður sem til þess hafa leitt. Auðvitað er þessi stóriðjuuppbygging, á þá kannski sérstaklega stóru álverin og umhverfisáhrifin umdeilt mál í okkar samfélagi, eins og ég sagði hér á fundinum. Við verðum bara að horfast í augu við það og virða það. Mjög margir í okkar röðum, Vinstri grænna, telja að það sé nóg komið og þeir vilja ekki færa miklar fórnir í umhverfismálum og á altari frekari álvæðingar í landinu. Það er andstaða við það að halda áfram á þessari braut hjá mörgum okkar félögum og stuðningsmönnum. Hin formlega staða málsins er þessi sem ég greindi frá, að við gerðum ákveðið samkomulag um það hvernig með þessi mál yrði farið þegar við mynduðum ríkisstjórnina og við það hefur verið staðið. Við höfum ekki lagt stein í götu þessa máls á ómálefnalegum forsendum“.