Laugardagur 10. september 2016 kl. 20:16

Farþegarnir gista á Íslandi í nótt

– Fulltrúar Rauða krossins til taks á hótelum farþeganna

Farþegar Boeing 767-þotu kanadíska WestJet-flugfélagsins eru enn á Íslandi og hefur verið komið á hótel. Fulltrúar frá Rauða krossinum mættu á hótelin til að vera til taks fyrir þá farþega sem þess óskuðu. Ekki er ljóst hvort önnur þota mun koma og sækja farþegana og flytja þá verstur um haf eða farþegarnir fari með vélinni sem þeir komu með hingað þegar gert hefur verið við bilunina. Flugvirkjar eru nú að skoða bilunina þotunni. Um borð í vélinni voru 258 farþegar og áhöfn.

Aðvörunarljós sem tilgreindi bilun í vinstri hreyfli vélarinnar varð til þess að flugstjóri vélarinnar óskaði eftir að lenda vélinni á Keflavíkurflugvelli en vélin var suður af landinu þegar viðvörunarljósið kviknaði.

Tilkynning barst Almannavörnum um kl. 13 í dag og voru þá allir viðbragðsaðilar kallaðir út og settir í viðbragðsstöðu. Þannig var öll viðbragðsáætlun Keflavíkurflugvallar virkjuð og viðbragðsaðilar innan vallar settir í viðbragðsstöðu, ásamt lögreglu og sjúkraliði í Reykjanesbæ. Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu voru einnig kallaðar út og 130 björgunarsveitarmenn settir í viðbragðsstöðu. Hjálparlið safnaðist saman á móttökusvæði við gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem og í Straumsvík þar sem sjúkrabílar af höfuðborgarsvæðinu voru í viðbragðsstöðu.

Þota WestJet hringsólaði bæði suður af Reykjanesskaganum og á Faxaflóa í talsverðan tíma áður en hún lenti svo í Keflavík kl. 14:40. Afl á vinstri mótor var óeðlilegt en flughæfni vélarinnar var ekki skert. Lendingin tókst vel og þegar vélin hafði verið stöðvuð og ljóst að ekkert amaði af farþegum og áhöfn þá voru bjargir afturkallaðar. Þotan var á leið frá London til Edmonton.